Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 16. apríl 2014 15:10
Elvar Geir Magnússon
Hjálmar Þórarins: Þunglyndið mitt og aðrar pælingar
Hjálmar Þórarinsson í leik með Fram fyrir nokkrum árum.
Hjálmar Þórarinsson í leik með Fram fyrir nokkrum árum.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjálmar í leik gegn Þrótti sem er hans uppeldisfélag.
Hjálmar í leik gegn Þrótti sem er hans uppeldisfélag.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
„Þunglyndi er ógeðslegt og ég óska ekki mínum versta óvini að ganga í gegnum það sem ég hef gert á síðustu þremur árum," segir Hjálmar Þórarinsson í pistli sem hann sendi Fótbolta.net.

Hjálmar er þriðji íslenski fótboltamaðurinn sem stígur fram á skömmum tíma og opinberar baráttu sína við geðsjúkdóm.

Hjálmar er fæddur 1986 og er uppalinn í Þrótti. Hann var mikið efni á sínum tíma en fyrir tíu árum síðan gekk hann í raðir Hearts í Skotlandi. Í janúar 2007 skipti hann yfir í Fram en hefur lítið látið fyrir sér fara í boltanum síðan hann lék átta leiki með Fram í Pepsi-deildinni 2011.

Hann hefur verið að glíma við þunglyndi eins og fram kemur í pistlinum sem sjá má hér að neðan. Þar vill Hjálmar bæta nokkrum orðum inn í umræðuna um geðheilsu fótboltamanna.



Þunglyndið mitt og aðrar pælingar

Sem manneskju og knattspyrnuiðkenda langar mig að bæta nokkrum orðum inn í þarfa umræðu, að því er virðist, um geðheilsu og knattspyrnuiðkun.

Klukkan er 2.20 um nótt þegar ég byrja að skrifa þennan örpistil. Einn af fylgifiskum þunglyndisins, truflun á svefnmynstri, gefur mér ástæðu til að skrifa nokkur orð um síðustu ár mín í fjarveru frá fótboltanum.

Þunglyndi er ógeðslegt og ég óska ekki mínum versta óvini að ganga í gegnum það sem ég hef, á síðustu þremur árum.

Orsakirnar eru alls konar og úrræðin álíka flókin. Sum úrræði hjálpa manni mikið, önnur ekki svo mikið og mikill munur getur verið á milli alvarleika og mismunandi ,,útfærslum" einkenna milli einstaklinga.

Undanfarið hafa hugrakkir leikmenn stigið fram og lýst sinni reynslu af geðsjúkdómum og langar mig að bætast í hóp þeirra um leið og ég þakka þeim fyrir að rjúfa þögnina.

Það er margt í lífinu sem mér finnst skemmtilegt að gera og eitt af því er að spila fótbolta. Allt frá undirbúningnum fyrir leiki, mataræði, tilhlökkun og klefastemningunni, til endurheimtarinnar eftir leik og tilhlökkun til hins næsta. Að fara á æfingar til þess að hitta aðra iðkendur, skiptast á sönnum sögum, hreyfa sig og reyna að bæta sig á hverri æfingu.

Knattspyrnutímabilið á Íslandi hefur ákveðna sérstöðu vegna veðurfars og eru skiptar skoðanir á því hvernig þróun mála ætti að vera í þeim efnum. Eins og staðan er núna er undirbúningstímabilið mjög langt og hefur undirritaður staðið sig að því að hafa minni áhuga á íþróttinni yfir vetrartímann, sem mér finnst sorglegt og eitthvað sem mig langar að breyta. Eflaust vegur eigið hugarfar þar þyngst og eigin metnaður fyrir íþróttinni. Óheppilega tímasett 6-7 mánaða fjarvera vegna meiðsla og endurhæfingar getur hins vegar gert það að verkum að maður spilar ekki alvöru keppnisleik (Íslandsmót og bikarkeppni) í 19 mánuði (td. október 2014 til maí 2016 ef leikmaður meiðist í apríl/maí 2015) sem er þrefaldur sá tími sem maður er raunverulega frá vegna meiðslanna.

Þetta var smá útúrdúr, en það er undir mér og minni (geð)heilsu komið hvert minn fótbolti á eftir að leiða mig burtséð frá því þá þá hlakkar mig til þess að fylgjast með íslenska fótboltanum (og HM) í sumar og langar mig að enda þetta á því að nota tækifærið og senda kærar kveðjur til vina og vandamanna, knattspyrnuáhugamanna og iðkenda nær og fjær.

Hjálmar Þórarinsson




Sjá einnig:
Upptaka - Ingólfur Sigurðsson um baráttuna við geðsjúkdóm
Guðlaugur Victor glímir við þunglyndi - Íhugaði að taka eigið líf
Athugasemdir
banner
banner
banner