„Við litum virkilega vel út," sagði Ellert Hreinsson, sóknarmaður Breiðabliks, eftir 5-1 sigur gegn Val í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins í kvöld. Blikar léku á als oddi í leiknum og Valsmenn áttu engin svör.
„Við komum vel inn í leikinn, við misstum aðeins dampinn seinni hluta seinni hálfleiks en komum virkilega sterkir í seinni hálfleikinn."
„Vonandi gefur þetta rétta mynd af liðinu fyrir sumarið. Það væri gaman en við erum samt á jörðinni."
Ellert skoraði tvö mörk í leiknum og virkar í hörkustandi en hann hefur oft verið ansi óheppinn með meiðsli
„Já mér líður mjög vel. Við vorum einmitt að ræða það í gær að þetta er eiginlega fyrsta heila undirbúningstímabilið sem ég næ síðan ég kom upp í meistaraflokk."
Seinna mark hans í kvöld var stórglæsilegt og fór hann illa með Þórð Steinar Hreiðarsson í aðdragandanum.
„Var ekki léttur Suarez í þessu? Þetta var virkilega „sexý" þó ég segi sjálfur frá. Þegar ég snéri hann af mér kom ekkert annað til greina en að fara bara sjálfur og klára þetta."
Viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir