mán 16. apríl 2018 23:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vidic um Mustafi: Hann veit ekkert hvað er í gangi
Shkodran Mustafi hefur verið slakur að undanförnu.
Shkodran Mustafi hefur verið slakur að undanförnu.
Mynd: Getty Images
Nemanja Vidic, fyrrum fyrirliði Manchester United, veit nú eitthvað um það hvernig skal verjast í ensku úrvalsdeildinni. Það er því best að hlusta þegar hann talar um varnarleik.

Shkodran Mustafi, varnarmaður Arsenal, vill þó eflaust ekki hlusta á það sem Vidic hefur að segja.

Vidic var sérfræðingur hjá Sky Sports í gær og fylgdist með leik Newcastle og Arsenal sem Newcastle vann 2-1. Arsenal komst yfir í leiknum en missti það frá sér og tapaði honum.

Mustafi hefur ekki verið að spila nægilega vel með Arsenal. Hann átti ekki góðan leik í gær. Jöfnunarmark Newcastle kom eftir að hann hafði misst Dwight Gayle inn fyrir sig og náði ekki að koma sér á undan Ayoze Perez í sendingu fyrir markið.

Vidic var hrifinn af Calum Chambers en ekki Mustafi.

„Lítið á þessa tvo leikmenn og hvernig þeir bregðast á mismunandi hátt við stöðunni. Chambers lítur í kringum sig en Mustafi er bara að horfa á boltann," sagði Vidic.

„Þú mátt ekki gera það sem varnarmaður. Þú verður að vera á tánum, vera líflegur og stilla þér rétt upp. Þú verður að fylgjast vel með hvað er að gerast í kringum þig."

„Hann er bara að horfa á boltann og veit ekkert hvað er í gangi í kringum sig," sagði Vidic.

Smelltu hér til að sjá allt það helsta úr leik Newcastle og Arsenal.







Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner