mið 16. maí 2018 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Park drakk safa úr froskum til að styrkja sig
Mynd: Getty Images
Suður-kóreski miðjumaðurinn Park Ji-sung segist eiga föður sínum knattspyrnuferil sinn að þakka.

Það sé aðallega vegna þess að faðir hans lét hann drekka safa úr froskum til að styrkja sig í æsku.

Park var hæfileikaríkur strákur en var of veikburða til að berjast við þá bestu. Faðir hans heyrði að safi úr froskum myndi hjálpa syninum að styrkja sig og ferðaðist því reglulega frá Suquon til Goheung til að veiða villta froska.

Froskarnir voru síðan soðnir og drakk Park safann sem kom út til að verða sterkari.

„Þetta var ótrúlega vondur safi en ég þurfti alltaf að drekka hann allan til að ná markmiðinu mínu, að verða atvinnumaður í knattspyrnu. Það sögðu allir við mig að ég þyrfti að styrkja til að fara á næsta stig og þetta svínvirkaði," sagði Park.

Park var þekktur fyrir orkumiklar frammistöður hjá Manchester United, en í dag er hann 37 ára gamall og starfar sem sendiherra félagsins í Kóreu.

Park vann þrjá Englandsmeistaratitla með Rauðu djöflunum og varð fyrsti asíski leikmaðurinn til að vinna Meistaradeild Evrópu.
Athugasemdir
banner
banner