Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 16. ágúst 2017 21:30
Magnús Már Einarsson
Gylfi: Frábært að íslensku félögin fá hluta af upphæðinni
Icelandair
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar því að Breiðablik og FH hagnist á félagaskiptum hans frá Swansea til Everton á 45 milljónir punda.

45 milljónir punda eru 6,4 milljarðar íslenskra króna en upphæðin rennur ekki öll til Swansea. Hluti af upphæðinni skal greiðast til félaganna sem Gylfi ólst upp hjá, svokallaðar samstöðubætur, sem eru greiddar ef leikmaður fer milli landa.

Þó svo Gylfi haldi áfram í ensku úrvalsdeildinni þá skiptir hann milli knattspyrnusambanda því Swansea er frá Wales en Everton Englandi.

Gylfi ólst upp hjá FH fyrstu árin en hélt til Breiðabliks í þrjú ár áður en hann var seldur til Reading á Englandi og síðar til Hoffenheim í Þýskalandi. Upphæðin skiptist svo hlutfallslega milli þessara félaga en hluturinn er mismunandi eftir aldri hans hjá viðkomandi félögum.

Breiðablik fær því 64 milljónir króna í samstöðubætur á meðan FH fær 32 milljónir króna eins og lesa má um hér.

„Það er frábært að íslenskir klúbbar séu að fá hluta af þessum upphæðum. Þessir peningar sem eru í sölum og kaupum í dag er klikkun. Það er frábært að hluti af upphæðinni fari til Íslands," sagði Gylfi við Fótbolta.net í kvöld.

„Hvort það styrki yngri flokkana eða meistaraflokkana skiptir rosalega litlu máli. Það er bara flott að peningurinn sé að fara heim."

Gylfi er orðinn einn af 40 dýrustu leikmönnum sögunnar eftir félagaskiptin. Truflar verðmiðinn hann?

„Ég ræð því ekki hversu mikið er borgað fyrir mig. Það er í höndum stjórnarmanna Swansea. Það angrar mig ekki þannig séð. Þetta eru griðarlega miklir peningar en vonandi næ ég að borga til baka á næstu 4-5 árum," sagði Gylfi.

Hér að neðan má horfa á viðtalið við Gylfa í heild.
Risa viðtal við Gylfa um félagaskiptin
Athugasemdir
banner
banner