banner
   mið 16. ágúst 2017 14:49
Elvar Geir Magnússon
Stjarnan hefur hafnað tilboðum erlendis frá í Hólmbert
Hólmbert hefur skorað sjö mörk í fimmtán leikjum með Stjörnunni í Pepsi-deildinni í sumar.
Hólmbert hefur skorað sjö mörk í fimmtán leikjum með Stjörnunni í Pepsi-deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan hefur hafnað þremur tilboðum frá félögum á norðurlöndunum í sóknarmanninn Hólmbert Aron Friðjónsson. Þetta staðfestir Victor Ingi Olsen hjá Garðabæjarfélaginu og segir að um sé að ræða félög í efstu og næstefstu deild.

„Þetta eru tilboð sem voru vissulega spennandi, bæði fyrir okkur og leikmanninn. En það var okkar mat að við gætum ekki misst Hólmbert á þessum tímapunkti fyrir lokasprettinn," segir Victor.

Ólafur Karl Finsen og Ævar Ingi Jóhannesson eru að stíga upp úr meiðslum, Þorri Geir Rúnarsson hefur einnig verið meiddur auk þess sem leikbönn eru að detta inn og hafnaði Stjarnan tilboðunum í Hólmbert þar sem breiddin í hópnum býður ekki upp á að missa hann.

„Allmörg félög hafa sýnt Hólmberti áhuga þá mánuði sem hann hefur verið hjá okkur. Eftir að við skoðuðum stöðuna þá funduðum við með Hólmberti og hann á þakkir skildar fyrir að sýna þessu skilning og ætla að taka þátt í baráttunni framundan með okkur. Við erum að berjast um titil og Evrópu og það eru mikilvægar vikur framundan," segir Victor.

Hann segir að líklega verði fengið sér sæti eftir tímabilið og staðan þá skoðuð varðandi áhuga á Hólmberti.

Hólmbert er 24 ára og kom til Stjörnunnar frá KR í fyrra. Þá er hann fyrrum leikmaður Bröndby auk þess sem hann var í herbúðum Celtic í Skotlandi. Hann varð bikarmeistari með Fram 2013 en er uppalinn hjá HK.

Stjarnan er í öðru sæti Pepsi-deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Vals þegar liðin eiga sjö leiki eftir. Stjarnan tekur á móti Fjölni á mánudaginn en Hólmbert verður í leikbanni í þeim leik eftir að hafa fengið umdeilt rautt spjald í jafntefli gegn KA í vikunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner