Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   fös 16. ágúst 2024 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Álitsgjafar spá í úrslitaleik Breiðabliks og Vals
Það er stórleikur í kvöld!
Það er stórleikur í kvöld!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katie Cousins.
Katie Cousins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birta Georgs elskar að skora á Laugardalsvelli.
Birta Georgs elskar að skora á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks.
Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Natasha Anasi.
Natasha Anasi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úrslitin í Mjólkurbikar kvenna ráðast í kvöld þegar tvö bestu lið landsins eigast við. Breiðablik og Valur mætast á Laugardalsvelli og verður flautað til leiks klukkan 19:15.

Við á Fótbolta.net fengum nokkra álitsgjafa til að rýna í leikinn en það er alveg klárt mál að það má eiga von á hörkuleik.

Elíza Gígja Ómarsdóttir (2-1 fyrir Breiðablik)
Það er ekki hægt að segja annað en að við séum að fá draumaúrslitaleik. Tvö bestu lið landsins að mætast, bæði búin að vinna einn innbyrðis leik í sumar og ALLT undir. Hver sá sem fylgist eitthvað með veit að Blikarnir eru vel særðir eftir vonda frammistöðu í þessum leik í fyrra og þær mæta staðráðnar í að bæta upp fyrir það. Þessi tvö lið spiluðu til úrslita fyrir tveimur árum síðan og þar höfðu Valsarar betur þannig að Blikar ætla sér örugglega að bæta upp fyrir það líka, mikið til að bæta upp fyrir hjá þeim grænklæddu. Valsararnir eru svo auðvitað ekki ánægðir með að hafa ekki spilað þennan leik í fyrra þar sem að allir á Hlíðarenda eru óðir í málm og gera ráð fyrir að spila þessa leiki.

Blikarnir eru Bikarlið og hafa verið tíðir gestir í úrslitum síðustu ár og voru með nokkuð gott record þangað til þær mættu Val 2022 en Valsarar, ótrúlegt en satt, hafa ekki verið neitt sérstaklega duglegar að komast í úrslit nýlega.

Ég held að þetta verði hörkuleikur, endanna á milli og ræðst á einstaklingsgæðum öðrum hvoru megin. Ætli Birta Georgs setji ekki eitt, hún elskar að skora á Laugardalsvelli, svo setur minn uppáhalds leikmaður, Katie Cousins eitt af harðfylgi. Svo er spurning hver setur sigurmarkið… það verður einhver í grænni treyju allavega. Lokatölur 2-1 fyrir Breiðablik og þær geta loksins sofið rótt eftir heilt ár af rauðum og svörtum martröðum.

Jón Stefán Jónsson (2-1 fyrir Val)
Þvílíkur leikur sem við fáum í bikarúrslitum þetta árið. Stórveldin í íslenskum kvennafótbolta að mætast við topp aðstæður. Já eða þið vitið, ef við horfum fram hjá blessuðu veðrinu! Frábær völlur, frábær lið og vonandi fullt af fólki. Ég verð illa svikinn ef við fáum ekki nálægt aðsóknarmeti á bikarúrslitaleik kvenna.

En að leiknum. Fyrir skömmu spáði ég að mig minnir 1-1 naglbít í leik sem fór fram á Hlíðarenda, tilfinningin var sú að leikurinn yrði lokaður og jafnvel myndi bara koma eitt mark í hann og sú varð raunin.

Einhvernvegin hef ég aðra tilfinningu fyrir þessum leik, ég held að þjálfararnir leggi upp með að fara hærra á völlinn og að liðin þeirra setji á stað alvöru sýningu sem muni útlistast í góðum fótbolta og nokkrum mörkum. Ég held að úrslitin ráðist samt í venjulegum leiktíma og spái því að þetta endi 2-1.

Ég ætla að tippa á að reynsla Péturs Péturssonar og Valstúlkna muni vega þyngra að þessu sinni og þær hafi þennan leik en jafn verður hann því það er ekki eins og Nik og hans stúlkur kunni ekki á þessar aðstæður.

Magnús Haukur Harðarson (2-2 og Breiðablik vinnur í vító)
Tvö langbestu lið landsins spila á Laugardalsvelli um þann stóra. Blikarnir hafa styrkt liðið sitt með Kristínu Dís og Samönthu Smith en Valur missti auðvitað Amöndu fyrir stuttu en hópurinn er öflugur og eru Berglind Björg, Þórdís Hrönn og fyrirliðinn Elísa Viðarsdóttir allar að koma til baka sem styrkir liðið gríðarlega. Skákin milli þjálfarana verður rosaleg og fáum við alveg einstaklega lokaðan fyrri hálfleik þar sem liðin fá sitt hvort færið eftir hornspyrnur og stöðubaráttan í algleymingi. Seinni hálfleikur verður rosalegur en Breiðablik kemst yfir á 58 mínútú og verður það Hrafnhildur Ása sem opnar leikinn upp á gátt og Vals liðið kemur upp úr skotgröfunum og ná inn jöfnunarmarki á 88 mín en Katie Cousins skorar með skoti utan af velli og allt jafnt eftir 90 mínútur. Valskonur byrja framlenginguna af miklum krafti og komast yfir eftir hornspyrnu en Breiðablik tekur miðju og jafna um leið stúkan ærist og við förum í vítakeppni þar sem Telma Ívarsdóttir verður hetjan.

Vonandi verður fjölmennt í stúkunni frá báðum liðum því liðin eiga það skilið og kvennaknattspyrnan þarf á því að halda.

Mist Rúnarsdóttir (1-1 og Valur vinnur í vító)
Það er komið að honum. Leik ársins. Sjálfum bikarúrslitaleiknum. Þar mætast tvö bestu lið landsins, vonandi með góðan stuðning síns fólks.

Leikir liðanna í deildinni í ár hafa verið skemmtilegir og liðin skipst á að vinna á sínum heimavelli. Hvað gerist svo á hlutlausum Þjóðarleikvanginum? Það er ekki gott að segja og mikill höfuðverkur að spá fyrir um úrslit enda hefur lítið skilið á milli í síðustu leikjum. Bæði lið spila góða vörn og geta refsað fyrir minnstu mistök mótherjanna. Mig dreymdi fyrir framlengingu og vító og skelli því bara í svoleiðis spá. Staðan verður 1-1 eftir venjulegan leiktíma. Nýju varnarjaxlarnir Natasha hjá Val og Kristín Dís hjá Blikunum með sitthvort markið eftir fast leikatriði. Það verður hellings fjör og dramatík en ekki fleiri mörk fyrr en í vítaspyrnukeppninni sem Valur vinnur 5-4.

En að öllum spám og vangaveltum slepptum þá verður þessi leikur frábær skemmtun og ég hvet öll til að mæta á völlinn og njóta!

Óskar Smári Haraldsson (2-1 fyrir Breiðablik)
Pétur Pétursson þjálfari Vals kom því vel frá sér í viðtali sem birt var á Fótbolta.net í gær að það væri ómögulegt að spá í leiki Vals og Breiðabliks. Tvö bestu lið landsins að mætast í bikarúrslitaleik, verður þetta eitthvað betra? Jú kannski öskubuskuævintýrið hjá Víkingi í fyrra. Mín spá er sú að þetta verði lokaður leikur, bæði lið fara mjög varkár inn í leikinn. Stöðubarátta alls staðar og miðjuhnoð munu einkenna fyrri hálfleikinn sem verður markalaus. Valsstúlkur komast yfir með marki frá Jasmín Erlu, ætla að setja á að hún skori með skalla. Undir lokin mun Nik setja nýja leikmanninn sinn, Sammy Smith, inn á og ég ætla að spá því að hún steli öllum fyrirsögnunum og leggi upp jöfnunarmarkið á Vigdísi Lilju, 1-1 eftir venjulegan leiktíma. Í framlengingunni, þá klárar Sammy leikinn fyrir Blikastúlkur sem verða bikarmeistarar þetta árið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner