Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   fös 16. ágúst 2024 11:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Engar afsakanir hjá Brazell - „Þykir leiðinlegt að fara á þennan hátt"
Lengjudeildin
Chris Brazell, fyrrum þjálfari Gróttu.
Chris Brazell, fyrrum þjálfari Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Á hliðarlínunni.
Á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brazell hafði starfað hjá Gróttu frá 2019.
Brazell hafði starfað hjá Gróttu frá 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er bara 32 ára gamall.
Er bara 32 ára gamall.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Margir þjálfarar sem ég keppti á móti höfðu samband við mig síðustu daga, sem sýnir hvað þeir eru frábærir'
'Margir þjálfarar sem ég keppti á móti höfðu samband við mig síðustu daga, sem sýnir hvað þeir eru frábærir'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einbeittur á svip.
Einbeittur á svip.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Grótta fagnar marki.
Grótta fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Ég er virkilega þakklátur félaginu fyrir að hjálpa mér að setjast að í landi sem ég kalla nú heimili mitt'
'Ég er virkilega þakklátur félaginu fyrir að hjálpa mér að setjast að í landi sem ég kalla nú heimili mitt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég hef brennandi áhuga á þjálfun, hvort sem það er í karla- eða kvennaboltanum, og ég hef fulla trú á hæfileikum mínum'
'Ég hef brennandi áhuga á þjálfun, hvort sem það er í karla- eða kvennaboltanum, og ég hef fulla trú á hæfileikum mínum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég skammast mín ekki fyrir að segja að ég sé særður. Mér þykir leiðinlegt að fara á þennan hátt og ég mun sakna félagsins og fólksins," segir Chris Brazell, fyrrum þjálfari Gróttu, í viðtali við Fótbolta.net.

Um síðustu helgi bárust þau tíðindi að Grótta ætlaði sér að gera breytingar og var Brazell látinn taka pokann sinn. Grótta er í harðri fallbaráttu í Lengjudeildinni.

Í tilkynningu Gróttu sagði: „Brazell tók til starfa hjá Gróttu í árslok 2019 og hefur síðan þá unnið mikið og gott starf fyrir félagið. Chris var yfirþjálfari yngri flokka í þrjú ár, aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í eitt tímabil og var nú á sínu þriðja tímabili sem þjálfari meistaraflokks. Allan sinn tíma hjá Gróttu lagði Chris ríka áherslu á að bæta starfsumhverfi þjálfara og auka fagmennsku í starfi knattspyrnudeildar."

Chris segist stoltur af þeirri vinnu sem hann vann hjá Gróttu ásamt öðru starfsfólki félagsins.

„Ég er stoltur af vinnunni okkar og þakklátur starfsfólkinu, leikmönnunum og sjálfboðaliðunum.Við bættum umgjörðina, réðum inn frábært starfsfólk inn á fótboltadeildina, hækkuðum fagmennskuna í kringum karla- og kvennaliðið og bjuggum til skemmtilegt vinnuumhverfi," segir Englendingurinn.

„Við reyndum að halda uppi Gróttu DNA-inu sem var sett á laggirnar í tíð Óskars Hrafns í báðum meistaraflokkum og í yngri flokkum. Við fengum inn yfirmann fótboltamála til að styrkja innviðina og við hjálpuðum starfsfólki félagsins að þróast til að taka að sér enn stærri hlutverk: Gareth (Owen) varð aðstoðarmaður Rúnars Kristinssonar hjá Fram, Björn (Beiðfjörð) varð yfirþjálfari yngri flokka hjá Fjölni og Magnús (Örn Helgason) fór til starfa hjá KSÍ. Fólkið sem er eftir hjá félaginu er alveg eins sterkt: Paul, Simon, Arnar, Dom, Gabríel, Viktor, Matti og Melkorka gætu öll starfað á hærra stigi."

Hann segist virða ákvörðunina sem Grótta tekur með því að breyta um þjálfara.

„Ég virði ákvörðunina. Ég veit hvernig þetta virkar; jafnvel í fjölskyldufélagi er þetta úrslitabransi og árangurinn var ekki nógu góður á þessu tímabili. Ef metnaður félagsins er eingöngu núna að halda sér uppi og leikmenn þurfa ferska rödd til að hvetja þá áfram, þá getur það verið rétta ákvörðunin að kasta teningnum," segir Brazell.

Engar afsakanir frá mér
Á fyrsta tímabili hans sem aðalþjálfari meistaraflokks, þá endaði Grótta í þriðja sæti, á öðru tímabilinu í níunda sæti og núna er liðið í tólfta sæti og að berjast um að halda sér uppi.

„Liðið skilaði góðri frammistöðu í tvö tímabil og vann eða gerði jafntefli í fleiri leikjum en það tapaði. Við reyndum að spila jákvæðan fótbolta þrátt fyrir að vera ekki sigurstranglegra liðið í flestum leikjum. Starfsfólkið var alltaf hugrakkt: Við byggðum upp 2023 liðið okkar í kringum 15 ára leikmann og í síðasta leiknum mínum völdum við að spila strák fæddum 2007 í staðinn fyrir leikmann sem á leiki fyrir ensku yngri landsliðin," segir Brazell en það gekk ekki nægilega vel á þessari leiktíð sem er núna í gangi.

„Engar afsakanir frá mér, ég þjálfaði og valdi liðið og á endanum söfnuðum við ekki nógu mörgum stigum eða spiluðum nógu vel. Allir reyndu allt sem ég bað þá um, svo ég ætla að líta í spegil frekar en að kenna öðrum um eða koma með afsakanir."

Hann hefur trú á því að Grótta geti haldið sér uppi, komi sér upp úr þessari holu.

„Já, ég hef trú á liðinu. Við lentum alltaf í holum - það er í eðli þess að vera minna lið - en styrkur okkar var að komast upp úr þeim. Liðið hefur enn hæfileikaríka og ástríðufulla leikmenn með frábæra þjálfara í kringum sig í Paul, Simon, Dom og Arnari. Ég mun hvetja þá og nýja þjálfarann þeirra til dáða. Ég mun einnig styðja við bakið í kvennaliðinu í baráttu þeirra um að komast upp. Ég verð alltaf stuðningsmaður Gróttu," segir hann.

Ég gerði hundruði mistaka
Chris er ungur þjálfari og hann hefur lært mikið af tíma sínum hjá Gróttu.

„Hvar eigum við að byrja? Kannski, ekki lenda upp á móti fjölmiðlum? Ég hefði átt að hlusta á fólk sem er miklu eldra og vitrara en ég, en það er ákveðinn barnaskapur sem fylgir því að vera ungur. Ég gerði hundruði mistaka og nú verð ég að sætta mig við þau og læra í gegnum erfiðu leiðina," segir Brazell en hann er meðvitaður um að hann hafi gert töluvert af mistökum.

„Ég sé eftir öllum mistökunum! En ég sé líka eftir því að hafa skilið liðið eftir í 12. sæti. Það er biturt. Ég veit að þú vilt að ég segi að ég sé eftir hegðun minni stundum en ég sé ekki eftir því að hafa keppt af kappi, að hafa barist fyrir liðið mitt eða staðið með sjálfum mér. En þegar þú gerir þessa hluti þá þarftu að takast á við afleiðingarnar. Margir þjálfarar sem ég keppti á móti höfðu samband við mig síðustu daga, sem sýnir hvað þeir eru frábærir. Ég sé eftir því líka að hafa ekki séð það fyrr, frekar en að vera einfaldlega staðráðinn í að sigra þá bara."

Eins og hann nefnir þarna, þá komst Brazell stundum í fréttirnar fyrir hegðun sína. Fréttamenn Fótbolta.net fengu stundum að heyra það frá honum fyrir skrif sín og spurningar. Er hann ósáttur við þá umfjöllun sem hann hefur fengið í fjölmiðlum?

„Ég get ekki kvartað. Ef þú ætlar að láta í þér heyra, þá verður þú að geta tekið því þegar þú færð það á móti. Ég gerði það og nú á ég það skilið ef fjölmiðlar, þjálfarar, leikmenn eða aðdáendur annarra liða vilja hlæja að mér. Var hegðun mín eitthvað öðruvísi en hjá bestu þjálfurunum hér á landi? Nei, kannski lætur Arnar (Gunnlaugsson) mig líta út eins og engil. En það er ekki skylda þín að koma eins fram við alla, sérstaklega þegar þeir vinna í litlu félagi, í erlendu landi og með lítinn orðstír á bak við sig. Ég virði skoðanir ykkar og kannski get ég lært af þeim til lengri tíma litið," segir Brazell.

Viss um að þau munu halda starfinu áfram
Hann kveðst stoltur af ýmsu frá tíma sínum hjá Gróttu og tekur mikið með sér frá starfinu.

„Starfsfólkið hjálpaði til við að þróa unga leikmenn sem voru svo seldir til að spila á hærra stigi, leikmenn eins og Kjartan Kára, Tómas Johannessen, Luke Rae, Benjamin Friesen og nú síðast Tareq Shihab. Þau hafa líka hjálpað reynslumeiri leikmönnum að stíga enn frekar upp. Við stefndum að því að halda þessu áfram með því að búa til ákveðið njósnaferli og leggja áherslu á hvernig við löðum að okkur leikmenn af öllum gerðum," segir Brazell.

„Upp á síðkastið tókst félaginu að semja við íslenska unglingalandsliðsmenn, félagið fékk traust frá stærstu félögunum til að fá leikmenn á láni, það hefur fengið reynslumeiri leikmenn eins og Aron Bjarka Jósepsson og Rasmus Christiansen, skapað samstarf við akademíu í Afríku og búið til umhverfi til að fá leikmenn eins og Tareq og Damian Timan sem eru að að koma frá stórum félögum eins og Brighton og PSV."

„Félagið átti í erfiðleikum með að afla fjár í gegnum styrktaraðila svo hugmyndin var að verða sjálfbært félag með félagaskiptum á næstu tímabilum og tryggja okkur til lengri tíma sem eitt af bestu 26 liðum landsins á sama tíma og við myndum styrkja tengslin við yngri flokkana okkar og aðstöðuna fyrir samfélagið. Hlutverki mínu í þessu ferli er lokið en ég er viss um að þau sem stjórna og nýi þjálfarinn munu halda starfinu áfram," segir hann.

Það hefur ýmislegt verið bætt hjá Gróttu síðustu árin en eitt sem á eftir að bæta er gervigrasið sem liðið spilar og æfir á. Leikmenn meistaraflokka félagsins skrifuðu opið bréf til bæjarfélagsins eftir síðasta tímabil þar sem þeir kröfðust að gervigrasið yrði lagað en það hefur lítið gerst í þeim efnum.

„Okkur var ljóst í lok árs 2023 að völlurinn væri nálægt því að vera óleikhæfur. Við sögðum klúbbnum og síðan bæjaryfirvöldum að þetta yrði að breytast. Það gerði það ekki og í staðinn vorum við með skráð yfir 20 liðameiðsli árið 2023, þar á meðal langtímameiðsli hjá Damian, Eirik, Valda, Ívan og Tumeliso. Kvennaliðið varð fyrir svipuðum meiðslum og þar voru tvö slitin krossbönd. Jafnvel ég endaði með liðbandameiðsli í 8 vikur. Það er erfiðara að halda sér á vellinum en að meiðast, það er staðreynd. Þetta ástand er ekki sanngjarnt gagnvart fullorðnum eða börnum og ég mun halda áfram að berjast fyrir því að það breytist á meðan ég bý í bænum," segir Brazell.

Ég hef fulla trú á hæfileikum mínum
Brazell kveður Gróttu með ýmsar góðar minningar. „Mínar bestu minningar eru svolítið í móðu svo ég held að það sé best að hafa þær ekki á netinu," segir hann léttur. „Ég kynntist fullt af frábæru fólki og við skemmtum okkur konunglega saman. Ég er virkilega þakklátur félaginu fyrir að hjálpa mér að setjast að í landi sem ég kalla nú heimili mitt."

Hann hefur sest að á Íslandi og á íslenska kærustu. Hér hefur hann fengið tækifæri til að þróast sem þjálfari. Er gaman að starfa sem þjálfari Íslandi?

„Þegar þú tapar 10 leikjum af 11, þá nei. En oftast, jú. Mér líkar það að fólk hérna sé í fótbolta af ástríðu, frekar en að líta á þetta bara sem starfsgrein, og ég virði hugarfar fólksins mjög mikið. Ísland er fallegur staður þegar maður er búinn að venjast vindinum."

Það hafa verið sögur um það að nokkur félög í Bestu deildinni hafi áhuga á að fá Brazell inn sem aðstoðarþjálfara og nefndi 433.is KR í því samhengi. Á meðan hann var þjálfari Gróttu var hann þá orðaður við félög í efstu deild á Íslandi og í B-deild á Englandi. Hann ákvað hins vegar að vera áfram hjá Gróttu og halda áfram í verkefninu sínu þar.

„Það lítur kannski heimskulega út núna en ég vona að það verði ekki þannig í framtíðinni," segir Brazell en hvað gerist næst?

„Kannski ætti ég að gerast fréttamaður á Fótbolta.net næstu vikurnar til að fá að smakka á mínu eigin meðali. Þó ég haldi nú að yfirmaður þinn myndi henda ferilskránni minni beint í ruslið," segir hann og hlær.

„Ég hafði planað að vera áfram á Íslandi næstu 12-18 mánuðina allavega og ég vil halda mig við það plan. Ég er ekki búinn að selja húsið mitt þó ég hafi verið rekinn. Ég hef brennandi áhuga á þjálfun, hvort sem það er í karla- eða kvennaboltanum, og ég hef fulla trú á hæfileikum mínum. Á næstu vikum ætla ég að taka hlutunum rólega og ef einhver þjálfari vill að ég hjálpi þeim þá gæti ég gert það bara mér til skemmtunar. En eftir það er ég raunsær: Lífið er ekki eintómt ævintýri og þú verður að vinna þér inn réttinn til að vera áfram í þessum leik. Ég mun taka lífinu eins og það kemur og einbeita mér að því að reyna að vaxa eftir þessi síðustu fjögur ár," sagði þessi 32 ára gamli þjálfari að lokum.
Athugasemdir
banner
banner