Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   mán 16. september 2013 11:22
Magnús Már Einarsson
Lárus Orri hættir með KF
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
Lárus Orri Sigurðsson hefur ákveðið að hætta sem þjálfari KF eftir þetta tímabil en liðið leikur sinn síðasta leik í 1. deildinni gegn Selfyssingum á laugardag.

,,Ég er að klára þriggja ára samning. Ég er búinn að keyra á milli (frá Akureyri) í þrjú ár og var búinn að taka ákvörðun um þetta fyrir tímabilið að þetta yrði síðasta tímabilið, hvernig sem færi," sagði Lárus Orri við Fótbolta.net í dag.

,,Þetta eru búin að vera mjög skemmtileg þrjú ár hjá KF. Það er mikið af góðu fólki sem maður hefur unnið með og þetta hefur verið góður tími þó að þetta sé ekki að enda eins og við vildum."

2. deildin betri fyrir KF:
KF féll úr 1. deildinni um helgina eftir 7-0 tap gegn Grindavík en staða liðsins var afar erfið fyrir þann leik.

,,Þetta var ekki búið fyrir þennan leik. Þetta var ansi erfitt en eftir að við missum mann út af og þeir skora úr aukaspyrnunni, þá kom smá uppgjöf í þetta hjá okkur."

Fyrir mót var KF spáð neðsta sæti í 1. deildinni en liðinu gekk ágætlega að blása á hrakspár framan af sumri.

,,Það var vitað frá þeim degi sem við fórum upp í fyrra að þetta yrði mjög erfitt. Við byrjuðum nokkuð vel. Liðið var kannski á smá yfirsnúning í byrjun og önnur lið vanmátu okkur. Þegar liðin fóru að koma á fullu á móti okkur þá fór þetta að verða svolítið erfitt. Það eru margir leikmenn hjá okkur sem eru að standa sig mjög vel í sumar og hafa fengið góða reynslu."

,,Þegar maður horfir á þetta raunsætt þá er 2. deildin betri fyrir KF eins og staðan á félaginu er í dag. Þó að allir í kringum klúbbinn, leikmenn, stjórnarmenn og þjálfarar hafi gert allt til að halda sér uppi þá erum við svolítið að skjóta yfir okkur með því að vera í fyrstu deildinni."


,,Væri gott að taka pásu"
Lárus Orri þjálfaði Þórsara áður en hann tók við KF haustið 2010 en hann segist ekki vera ákveðinn í að halda áfram í þjálfun.

,,Ég er ekkert búinn að ákveða það. Maður er kominn með nóg af þessu öllu saman og ég er ekkert að stressa mig. Það væri mjög gott að taka sér smá pásu. Ég er búinn að starfa við þetta í tuttugu ár, fyrst sem leikmaður og síðan sem þjálfari. Ef það kæmi eitthvað mjög spennandi upp þá myndi maður skoða það en ég er ekkert að leitast eftir því, ég hlakka til að taka smá pásu," sagði Lárus Orri.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner