Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 16. september 2014 21:07
Magnús Már Einarsson
Sigurbjörn Hreiðars: Ekki fyrsti kostur að spila
Sigurbjörn í leik með Haukum í fyrra.
Sigurbjörn í leik með Haukum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurbjörn í viðtali hjá Arnari Dað Arnarssyni skemmtanastjóra Fótbolta.net.
Sigurbjörn í viðtali hjá Arnari Dað Arnarssyni skemmtanastjóra Fótbolta.net.
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
,,Ég tilkynnti á æfingu áðan að ég muni hætta með Haukana eftir síðasta leik. Við höfum talað saman og skiljum í góðu enda hef ég átt þrjú mjög góð ár hjá Haukum. Ég hef gefið mig allan í þetta og ég er mjög sáttur,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson fráfarandi þjálfari Hauka við Fótbolta.net í kvöld.

Haukar eru með 29 stig í 8. sæti í 1. deildinni fyrir lokaumferðina á laugardag en þá mætir liðið Víkingi frá Ólafsvík.

,,Gengi liðsins hefur verið upp og ofan. Við rétt misstum af tækifærinu að fara upp í fyrra og höfum ekki náð okkur í gang í sumar. Það eru margar ástæður fyrir því. Ég lít á þetta sem gríðarlegan lærdóm og ég hef haft ótrúlega gaman að þessu. Það hefur reynt á mann og hópinn en éghef verið heppinn með einstaklinga hjá Haukum. Það hafa verið skemmtilegir karakterar í leikmannahópnum.“

Rétt að byrja þjálfaraferilinn
Sigurbjörn var spilandi aðstoðarþjálfari í fyrra og hitteðfyrra áður en hann tók við þjálfun liðsins síðastliðið haust. Sigurbjörn segist ekki hafa ákveðið hvað tekur við.

,,Það kemur í ljós. Það er allt opið. Ég er bara rétt að byrja minn þjálfaraferil og ég á vonandi nóg eftir þar. Ég hef lært gríðarlega á þessum tíma og ég tala nú ekki um á þessu síðasta ári.“

Hefur ekki rætt við Val
Sigurbjörn hefur verið orðaður við stöðu hjá sínu gamla félagi Val en hann segist ekkert hafa rætt við menn þar á bæ.

,,Ég hef rætt við menn á göngum Hlíðarenda þegar ég var á leiki á Hlíðarenda og annað slíkt en ég hef ekki rætt við Val eitt orð um þjálfun. Það er ekkert í gangi í því.“

Hinn 38 ára gamli Sigurbjörn spilaði einn leik með Haukum í síðasta mánuði en hann segist ekki vera búinn að ákveða hvað verður um takkaskóna.

,,Þeir eru í limbói. Það er ekki fyrsti kostur að spila, það er ljóst. Maður á samt aldrei að sgja aldrei. Maður veit ekki hvort skórnir séu komnir alveg upp á hillu eða ekki. Ég lít samt á mig sem meiri þjálfara en spilara,“ sagði Sigurbjörn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner