Gunnar Borgþórs var ósáttur með fyrri hálfleik sinna manna í 4-0 tapi Selfoss gegn Þrótti. Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik. „Þetta var skelfileg frammistaða hjá okkur,“ sagði Gunni um fyrri hálfleikinn.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 4 - 0 Selfoss
„Við byrjuðum reyndar leikinn bara nokkuð vel. Fyrstu 5 mínúturnar. Fáum gott skotfæri og erum mjög þéttir. Svo fáum við á okkur mark og þá lögðust allir á magann og lokuðu augunum. Við þurfum að finna skýringar. Við höfum ekki brotnað svona áður, ekki síðan fyrir rúmum tveimur árum síðan.“
Gunni skellti ekki ábyrgðinni alfarið á leikmenn þrátt fyrir að tala um alvarleg mistök og að Þróttur hafi fengið gefins mörk. Við gerum mistök þjálfararnir. Við stillum vitlaust upp og við ræðum aðeins saman í hálfleik og við gáfumst ekki upp. Strákarnir sýna karakter með að koma inn í seinni hálfleik með tapaðan leik. Þetta er tapaður leikur í hálfleik og við spiluðum þéttan varnarleik og fengum ekki á okkur færi í síðari hálfleik.“
Selfoss var spáð góðu gengi í sumar en það hefur hreint ekki verið raunin. „Við erum klárlega mjög vonsviknir með 9. sætið. Við ætluðum að vera ofar,“ sagði Gunnar. Sumir spekingar spáðu Selfossi m.a.s. upp um deild. „Já, sumir gerðu það. Það skiptir okkur engu máli. Hugsanlega truflaði það einhverja leikmenn en við erum alveg raunsæir á það. En við töldum okkur vera með betra lið, betri þjálfara, betri leikmenn og betra leikskipulag en taflan lýgur ekki.“
Athugasemdir