Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 16. október 2017 15:04
Elvar Geir Magnússon
Callum Brittain: Lærði margt á Íslandi
Brittain í leik með Þrótti.
Brittain í leik með Þrótti.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Callum Brittain hefur verið valinn besti ungi leikmaður mánaðarins í neðri deildum Englands. Þessi 19 ára hægri bakvörður spilar fyrir Milton Keynes Dons í ensku C-deildinni og hefur staðið sig það vel að félög eins og Tottenham eru farin að horfa til hans.

Brittain segir að hann væri ekki í þessari stöðu ef hann hefði ekki farið á lán til Íslands en í fyrra lék hann sex leiki fyrir Þrótt í Pepsi-deildinni.

„Þetta var öðruvísi lífsreynsla en var klárlega þess virði. Ég lærði mikið á Íslandi ekki bara í fótbolta heldur utan vallar líka. Ég var ekki að spila fullorðinsfótbolta á þessum tíma svo það var gott að fá reynslu af meistaraflokksbolta. Þetta var það sem ég vildi," segir Brittain í viðtali við BBC.

„Ég mæli klárlega með því að fleiri fari þessa leið."

Brittain var ekki einn í för því liðsfélagi hans, Kabongo Tshimanga, fór með honum á láni til Þróttar.

„Það er alltaf gott að hafa einhvern með þér upp á félagsskapinn því það er nokkuð einmanalegt þarna og ekki mikið af fólki, þrátt fyrir að þetta sé höfuðborgin. Þetta byggði mig mikið upp sem einstakling. Að búa einn, elda fyrir mig sjálfur og versla sjálfur inn. Það var ekki skemmtilegasti hlutinn en klárlega reynsla. Ég lærði mikið."

Brittain var á Íslandi þegar England tapaði fyrir íslenska landsliðinu á EM.

„Ég sat á bar á Íslandi með pabba mínum og við horfðum á leikinn. Hann var í ensku treyjunni og okkur var brugðið þegar við sáum Ísland vinna okkur. Við vorum fljótir að yfirgefa barinn og ég fékk smá skot á mig í búningsklefanum."

Brittain gæti fetað í fótspor Dele Alli sem kom upp úr unglingastarfi MK Dons og er nú lykilmaður hjá Tottenham.
Athugasemdir
banner
banner
banner