fim 16. nóvember 2017 14:00
Magnús Már Einarsson
Risa tímarit um íslenskan fótbolta á ensku
Marc Boal.
Marc Boal.
Mynd: Marc Boal
Mynd: Marc Boal
Skotinn Marc Boal hefur undanfarin ár gefið út tímarit um íslenskan fótbolta á ensku. Boal er mikill aðdáandi íslenska boltans og hann hefur nú gefið út tímarit sitt fyrir árið 2017.

Smelltu hér til að kaupa tímaritið og skoða sýnishorn

Marc kom til Íslands í vor til að vinna efni fyrir tímaritið. Stærsta greinin í tímaritinu að þessu sinni fjallar um Vestra. Marc heimsótti félagið og fékk að kynnast starfseminni þar.

Greinin um Vestra fór einnig í tímaritið "The Football Pink" á Englandi en greinin hefur vakið mikla athygli.

„Tímaritið er að vaxa á hverju ári en í fyrra sendi ég eintök til Brasilíu, Argentínu, Rússlands, Kanada, Bandaríkjanna og landa í Evrópu," sagði Marc við Fótbolta.net.

„Lesandi í Englandi keypti eintak og hann sendi mér skilaboð daginn eftir þar sem hann sagðist nú þegar vera búinn að kaupa flug til Íslands fyrir næsta ár til að fara á nokkra leiki."

Mikil vinna fer í hvert tímarit hjá Marc en hann vinnur allar greinar sjálfur og tekur ljósmyndir.

„KSÍ hefur hjálpað mér að skipuleggja viðtöl við núverandi og fyrrverandi leikmenn þar sem það getur verið erfitt að komast í samband við þá. Það tók um það bil 8 mánuði að búa til þetta tímarit þar sem að ég geri það yfirleitt í fjórum skrefum. Ég byrja snemma á árinu að taka viðtöl en það gekk ekki samkvæmt áætlun í ár. Ég hlýt að veita þjálfurum ólukku því ég tók viðtal við bæði Arnar Grétarsson og Ásmund Arnarsson og þeir voru báðir reknir frá sínum félögum."

Marc ætlar að gefa út tímarit fjórða árið í röð á næsta ári en það verður lokatímaritið í bili. Þá ætlar hann að heimsækja Austurland. Fjarðabyggð verður væntanlega aðalumfjöllunarefni hans í því tímariti.

„Ég er með spennandi áætlanir í gangi og ef einhver fyrirtæki á Íslandi vilja auglýsa í tímaritinu þá get ég stækkað það úr 72 síðum í eitthvað stærra. Ef einhver hefur áhuga á að auglýsa hjá mér þá má hafa samband við mig. Ég vonast síðan til að komast að minnsta kosti á einn leik á HM í Rússlandi en það veltur á borgunum sem Ísland spilar í."

Marc hefur á ferðalögum sínum undanfarin ár náð að heimsækja 37 félög á Íslandi og í tímaritinu á næsta ári ætlar hann að velja 15 flottustu vellina sem hann hefur farið á.

Meðal efnis í tímaritinu í ár Viðtöl við Heimi Hallgrímsson, Kára Árnason, Arnór Guðjohnsen, Heimi Karlsson og fleiri. Umfjöllun um Vestra, Þór, Kára, KA, Völsung, ÍA og fleiri félög.

Viltu kaupa tímaritið?
Smelltu hér til að kaupa tímaritið og skoða sýnishorn

Á Facebook síðu Marc eru frekari upplýsingar um tímaritið og hvernig má nálgast prentútgáfu
Twitter síða Marc Boal
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner