Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 17. febrúar 2017 13:30
Magnús Már Einarsson
Arsenal gæti mætt 127 kílóa markverði á mánudag
Wayne Shaw, varamarkvörður Sutton United.
Wayne Shaw, varamarkvörður Sutton United.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arsenal mætir utandeildarliðinu Sutton United í enska bikarnum næstkomandi mánudagskvöld. Maðurinn sem fær alla athygli enskra fjölmiðla fyrir leikinn er Wayne Shaw varamarkvörður Sutton.

Hinn 45 ára gamli Shaw er markmannsþjálfari, vallarstarfsmaður og varamarkvörður hjá Sutton. Shaw er talsvert þéttari en aðrir fótboltamenn sem eru að fara að spila 16-liða úrslitum enska bikarsins um helgina en hann er 127 kíló.

Shaw var framherji í yngri flokkum Southampton á sínum tíma en hann fór fyrst í markið á unglingsárum. Í rúmlega 20 ár hefur hann varið markið hjá hinum ýmsu félögum í ensku utandeildinni. Þar hefur hann sýnt góða frammistöðu þrátt fyrir að vera talsvert þyngri en aðrir markverðir.

„Þegar þú heyrir 127 kílóa markvörð öskra 'markvörður tekur boltann.' Þá held ég að framherjinn horfi yfir öxlina á sér," sagði Shaw.

Beðinn um að sitja nakinn fyrir
Stutt er síðan Shaw byrjaði í fullu starfi hjá Sutton en fram að því hafði hann starfað í ísbúð í 23 ár. Eftir að Sutton vann Leeds í enska bikarnum á dögunum fóru margar myndir að birtast af Shaw á samfélagsmiðlum og hann er maðurinn sem er í umræðunni fyrir leikinn á mánudag en fjölmiðlar keppast um að fjalla um hann.

„Ég hef gert ekkert nema að sitja hér og vera ég sjálfur. Það virðist vera sem svo að fólk vill horfa á stóra manninn. Þetta væri ekki enski bikarinn ef það væru ekki óvenjulegar sögur í kringum hann og Sutton er frábær, yndisleg og óvenjuleg saga," sagði Shaw.

Eitt af ensku blöðunum bað Shaw um að sitja fyrir nakinn...eða í öllu nema markmannshönskum. „Ég veit ekki hvað ég á að segja við þá. Þetta er klárlega það skrytnasta sem ég hef verið beðinn um," sagði Shaw.

Skallaði stuðningsmann sem gerði grín að honum
Stuðningsmenn hjá öðrum félögum hafa skotið létt á Shaw yfir þyngd hans. Shaw lætur það yfirleitt sem vind um eyru þjóta en árið 2013 missti hann þó stjórn á skapi sínu.

Shaw var að hita upp fyrir leik Sutton gegn Kingstonian þegar stuðningsmaður síðarnefnda liðsins gerði ítrekað grín að þyngd hans. Shaw stökk í kjölfarið upp í stúku og skallaði stuðningsmanninn. Sutton ákvað að reka Shaw frá félaginu en hann fékk aftur samning þar ári síðar.

„Þetta var slæmur dagur í vinnunni. Yfirleitt er þetta skemmtilegt og góðlátlegt grín en stundum verður það of persónulegt," segir Shaw þegar hann rifjar atvikið upp.
Athugasemdir
banner
banner
banner