fös 17. mars 2017 13:53
Magnús Már Einarsson
Heimir ræddi við Viðar um áfengisneyslu
Icelandair
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, ræddi við Viðar Örn Kjartansson, framherja Maccabi Tel Aviv, eftir að hann mætti undir áhrifum áfengis í flug frá Ísrael í æfingabúðir til Ítalíu fyrir leik landsliðsins gegn Króatíu í nóvember.

Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis, spurði Heimi Hallgrímsson á fréttamannafundi í dag út í atvikið en Tumi sagði að leikmenn U17 ára landsliðs Íslands hefðu meðal annars séð Viðar undir áhrifum áfengis á leið í flug. U17 ára liðið hafði þá verið að keppa í undankeppni EM í Ísrael.

„Auðvitað eru svona hlutir ræddir og þeir afgreiddir. Svona hlutir koma ekki fyrir aftur. Ég hef séð það á öllum hans aðgerðum eftir þetta að hann er í toppstandi núna og mun skila góðu verki með okkur," sagði Heimir en kom til greina að refsa Viðari fyrir atvikið?

„Hann flaug til Ítalíu daginn áður en landsliðið kom saman. Sumu ráðum við yfir en öðru ekki. Það eru skýrar reglur um það hvað við leyfum og hvað ekki."

„Þetta er á gráu svæði. Hvað getum við gert við leikmenn sem eru ekki komnir í landsliðsverkefni? Við ráðum bara yfir leikmönnum sem eru í verkefni hjá okkur."

„Reglurnar eru þannig að það er ekkert áfengi í landsliðsferðum. Það er góð regla hjá okkur og hún hefur staðið. Hvað menn gera áður en þeir koma til landsliðsins stjórnum við ekki. Við getum ekki refsað leikmönnum fyrir hvað þeir gera áður en þeir koma til móts við landsliðið."

Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is, spurði í kjölfarið að því hvort að tveir leikmenn hefðu verið gripnir við áfengisdrykkju eftir leikinn í Króatíu. Heimir neitar því.

„Það þarf ekkert að ræða það neitt. Það var ekki agabrot af einu né neinu leyti. Menn voru að horfa á UFC og voru nánast allir í orkudrykkjum. Sumir voru í vatni. Það var engin áfengisdrykkja eftir þann leik. Það vildu einhvejir fá sér bjór en mér fannst það vear óvirðing við næsta andstæðing (Möltu) þó að það hafi verið vináttuleikur. Það hefur oft komið upp spurning hvort það megi en við höfum nánast allaf neitað," sagði Heimir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner