fös 17. mars 2017 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir að Gylfi eigi að koma til greina í lið ársins
Gylfi hefur átt ótrúlegt tímabil!
Gylfi hefur átt ótrúlegt tímabil!
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið potturinn og pannan í liði Swansea á þessu tímabili. Án hans væri Swansea í miklu meiri vandræðum og sumir hafa haldið því fram að þeir væru örugglega fallnir úr ensku úrvalsdeildinni ef ekki væri fyrir íslenska landsliðsmanninn.

Gylfi er ótrúlega mikilvægur fyrir Swansea, en samkvæmt blaðamanni Wales Online gerir Gylfi sterkt tilkall í lið ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi hefur aldrei verið útnefndur í lið ársins í ensku úrvalsdeildinni, en tölfræði hans á tímabilinu ætti að sjá til þess að hann komist í það núna. Þetta kemur fram í frétt Wales Online.

Gylfi skarar fram úr þegar kemur að stoðsendingum. Hann hefur gefið flestar stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni, 11 talsins, en enginn annar leikmaður Swansea er með fleiri en tvær.

Þessi íslenski landsliðsmaður leggur ekki bara upp mörk, hann skorar þau líka. Hann er búinn að skora átta mörk í deildinni sem þýðir að hann hefur komið að 19 af 36 mörkum Swansea í deildinni.

Gylfi hefur komið að 53% marka síns lið, en sá leikmaður sem kemst honum í þeirri tölfræði er Alexis Sanchez, leikmaður Arsenal. Hann hefur komið að 47% marka hjá sínu liði.

Hann er líka sá leikmaður sem hefur átt flestar fyrirgjafir, 206, og sá leikmaður sem hefur hlaupið mest af öllum, eða 318,2 kílómetra.

Gylfi hefur átt ótrúlegt tímabil og það sést þegar tölfræðin er skoðuð. Hann er í keppni við bestu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar, á meðan liðið er að berjast í neðri hlutanum.

Ef Gylfi nær að hjálpa Swansea að forðast fall þá hlýtur hann að koma til greina, eða það heldur blaðamaður Wales Online allavega. Swansea er í 16. sæti með 27 stig, þremur stigum frá fallsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner