fös 17. apríl 2015 14:30
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Jói Harðar: Gengið þrælvel að fá hlutina til að ganga upp
Jóhannes Harðarson, þjálfari ÍBV.
Jóhannes Harðarson, þjálfari ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Fugl flýgur yfir Hásteinsvöll.
Fugl flýgur yfir Hásteinsvöll.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er skref upp á við miðað við síðustu spá sem við heyrðum," segir Jóhannes Harðarson, þjálfari ÍBV, um að Eyjamönnum sé spáð 10. sæti deildarinnar. Það er sama sæti og liðið endaði í síðasta ár. Í spá 433 var liðinu spáð neðsta sæti.

„Við pælum lítið í þessu og höfum fókusinn á okkur sjálfa. Engu að síður held ég að þetta sé ekkert óeðlilegt. Við erum spurningamerki hjá mörgum. Það gekk illa í fyrra og gengið í vetur hefur verið misjafnt."

Teljum okkur hafa mjög sterkt lið
„Það hafa verið töluverðar breytingar á hópnum frá síðasta tímabili en við teljum okkur vera með mjög sterkt lið. Við teljum okkur geta klifrað hærra en spár segja til um. Það er bara okkar að sýna það og sanna þegar að mótinu kemur."

Jóhannes tók við liði ÍBV í vetur þegar Sigurður Ragnar Eyjólfsson lét af störfum en hann þjálfaði áður í neðri deildum Noregs.

„Ég er mjög ánægður með þær leikmannatýpur sem við höfum fengið inn. Ég tel okkur hafa verið nokkuð klóka í að fá þessa menn og tel að þeir eigi án nokkurs vafa eftir að sýna sig og sanna í þessari deild í sumar. Við misstum sterka menn frá því í fyrra en tel að við höfum fyllt í þau skörð. Við erum að hugsa til lengri tíma og það verður að koma í ljós hversu langt við komumst með liðið í ár. Við ætlum okkur stóra hluti til lengri tíma litið," segir Jóhannes.

Frábært samstarf með stjórninni
ÍBV varð bikarmeistari í handbolta í vetur en umræða hefur verið um að þegar vel gangi í handboltanum sé erfiðara fyrir fótboltadeildina að fá styrki fyrirtækja í bæjarfélaginu. Jóhannes segist ekki finna fyrir þessu.

„Engan veginn. Öll þau plön og áætlanir sem við gerðum í upphafi hafa alveg staðist. Það hefur gengið þrælvel að fá hlutina til að ganga upp. Þetta hefur verið frábært samstarf milli mín og stjórnarinnar og við erum mjög samstíga í því sem við höfum tekið okkur fyrir hendur."

Spenna fyrir 2015 útgáfunni
Áhugaverð úrslit urðu í Lengjubikarnum í gær og ljóst að ansi athyglisvert Íslandsmót er framundan.

„Maður veit ekki hvort þessi úrslit gefi einhver fyrirheit um mótið. Það er ýmislegt athyglisvert að gerast í þessum leikjum. Það voru skrítnir hlutir í þessum 8-liða úrslitum í gær. Það verður hart barist á toppi og botni. Það má búast við því að það verði áfram þessi stóru lið sem verði að berjast um titilinn og svo fylgja mörg lið í kjölfarið sem gætu komið á óvart. Fyrir utan þessi 2-3 stærstu lið er erfitt að sjá hvaða lið verða við toppinn og botninn," segir Jóhannes sem segir að hrærigrautur verði líklega fyrir aftan efstu liðin.

„Það á örugglega eitthvað lið eftir að koma á óvart og blanda sér við toppinn og kannski einhver lið sem valda vonbrigðum líka. Þetta verður mjög fróðlegt."

Það var ákveðin ládeyða í fótboltanum í Vestmannaeyjum í fyrra. Hvernig skynjar Jóhannes stemninguna fyrir komandi tímabili?

„Ég held að það sé töluverð spenna fyrir þessu. Ég held að margir bíði spenntir eftir 2015 útgáfunni af ÍBV. Veturinn hefur verið misjafn. Í sumum leikjum höfum við verið alveg frábærir en daprir í öðrum. Marsmánuður var mjög svartur en síðan þá höfum við náð að þétta okkur saman. Æfingar og síðustu leikir hafa verið jákvæðir og gefið góð fyrirheit finnst mér. Stemningin er fín bæði í hópnum og í Vestmannaeyjum," segir Jóhannes.
Athugasemdir
banner
banner
banner