þri 17. apríl 2018 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Barcelona kallar en Sessegnon er einbeittur á Fulham
Sessegnon dreymir um að spila í ensku úrvalsdeildinni með Fulham.
Sessegnon dreymir um að spila í ensku úrvalsdeildinni með Fulham.
Mynd: Getty Images
Barcelona hefur áhuga á hinum 17 ára gamla Sessegnon.
Barcelona hefur áhuga á hinum 17 ára gamla Sessegnon.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ryan Sessegnon var á verðlaunahátíð á sunnudaginn valinn besti leikmaður Championship-deildarinnar. Sessegnon er aðeins 17 ára en hann hefur farið mikinn með Fulham á þessu leiktímabili.


Sessegnon fór heim með fleiri verðlaun þetta kvöld og var meðal annars líka valinn besti ungi leikmaður tímabilsins.

Þessi drengur er sem fyrr segir aðeins 17 ára gamall! Hann er markahæsti leikmaður Fulham á tímabilinu með 14 mörk af vinstri kantinum. Hann getur líka leikið sem vinstri bakvörður.

Enskir fjölmiðlar telja að Sessegnon verði eftirsóttur í sumar og ekki bara af enskum liðum. Barcelona er sagt fylgjast náið með honum ásamt Paris Saint-Germain.

Öll stærstu liðin í ensku úrvalsdeildinni hafa líka áhuga en sjálfur er Sessegnon bara einbeittur á Fulham.

„Það myndi gera svo mikið fyrir mig persónulega að fara upp með Fulham," segir Sessegnon. „Fulham er liðið sem hefur gert mig að atvinnumanni, liðið sem hefur gefið mér tækifæri."

Fulham er í baráttu um að fara upp en liðið er sem stendur í þriðja sæti Championship-deildarinnar, einu stigi á eftir Aroni Einari Gunnarssyni og félögum í Cardiff.

„Það er draumur minn að spila með Fulham í ensku úrvalsdeildinni. Við erum mjög nálægt því," segir Sessegnon, sem gæti óvænt dottið inn í HM-hóp Englands. Margir hafa kallað eftir því á samfélagsmiðlum að fá hann með til Rússlands.

Það gæti því orðið nóg að gera hjá þessum bráðefnilega leikmanni í sumar, innan sem utan vallar.
Athugasemdir
banner
banner
banner