Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mið 17. maí 2017 21:42
Brynjar Ingi Erluson
Michee Efete: Þetta eru augljóslega slæm úrslit
Michee Efete, varnarmaður Breiðabliks.
Michee Efete, varnarmaður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Efete í baráttunni við Guðjón Baldvinsson á dögunum
Efete í baráttunni við Guðjón Baldvinsson á dögunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Michee Efete, varnarmaður Breiðabliks í Pepsi-deild karla, var skiljanlega vonsvikinn með 1-0 tap liðsins gegn Fylki í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld en leikið var á Floridana-vellinum í Árbæ.

Efete kom til Blika á dögunum á láni frá Norwich City sem leikur í næst efstu deild á Englandi. Hann hefur verið afar nálægt aðalliði Norwich en var sendur til Íslands til þess að sækja sér meiri reynslu.

Hann hefur staðið sig ágætlega vel í fyrstu tveimur leikjunum þrátt fyrir að þeir hafi tapast en hann var besti maður Blika í Árbænum í dag er Fylkismenn stálu sigrinum.

„Þetta eru augljóslega slæm úrslit. Ég held að þetta lið sé í næst efstu deild en þó í efsta sæti deildarinnar. Við hefðum samt sem átt að vinna þá og nýta tækifærin betur, við fengum á okkur vítaspyrnu og eftir það var erfitt að skora. Við eigum samt að gera betur," sagði Efete við Fótbolta.net.

„Ég er að komast hratt í hlutina hérna og hef staðið mig vel en þetta er liðsíþrótt og við unnum ekki og því erum við vonsviknir. Vonandi kemur sigurinn bráðlega."

Efete og Damir hafa myndað miðvarðarparið hjá Blikum í síðustu tveimur leikjum en Efete er spenntur fyrir þeirri samvinnu.

„Ég og Damir erum að gera vel þarna aftast og vinna vel saman. Við erum að reyna að finna bestu varnarlínuna fyrir næstu leiki og vonandi kemur það allt saman."

„Ég bjóst ekki við því að þetta væri svona gott. Mér líkar vel við landið, deildin er mjög góð og fólkið líka."


Efete er eins og áður segir á láni frá Norwich en hann vonast til þess að nýta sér þessa reynslu og verða betri leikmaður áður en hann fer aftur til Englands.

„Ég kom hérna til að sækja mér reynslu og læra margt nýtt svo ég geti nýtt mér það á Englandi. Hvort sem ég fer til Englands og spila með mínu liði eða fer á lán svo í annað lið á Englandi, bara þar sem ég get spilað bolta og sótt reynslu."

Hann var afar nálægt aðalliðinu hjá Norwich áður en hann var sendur á lán en hann æfði oft með liðinu og var þá í hóp hjá liðinu í nokkrum leikjum.

„Ég er mjög nálægt aðalliðinu hjá Norwich og æfði stundum með þeim og ég vil komast alveg í hópinn hjá þeim og sjá hvað gerist svo eftir það."

Hann hefur ekki enn komist í að skoða íslenska náttúru en hann vonast til að geta gert það bráðlega.

„Ég hef ekki séð mikið af Íslandi en ég þarf að fara bráðlega og skoða alla þessa fallegu staði sem ég hef heyrt um," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner