Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 17. ágúst 2017 15:00
Elvar Geir Magnússon
Alfreð: Ég er tilbúinn að axla aukna ábyrgð
Alfreð reiknar með harðri baráttu í þýsku deildinni.
Alfreð reiknar með harðri baráttu í þýsku deildinni.
Mynd: Getty Images
Í leik á síðasta tímabili.
Í leik á síðasta tímabili.
Mynd: Getty Images
Þýska Bundesligan fer af stað um helgina en íslenski landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason og félagar hans í Augsburg hefja leik gegn Hamborg.

Alfreð var í viðtali við þýska fjölmiðla um komandi tímabil og byrjaði að tjá sig um óvænt tap liðsins gegn C-deildarliðinu Magdeburg í þýska bikarnum á dögunum.

„Það er ekki góð tilfinning að falla út úr þýska bikarnum. Við vitum að frammistaða okkar gegn Magdeburg var ekki nægilega góð en deildin byrjar á laugardag. Við eigum góða möguleika á að taka þrjú stig ef við mætum með rét hugafar," segir Alfreð.

Hann segir að samkeppnin innan hópsins sé mikil.

„Við erum með stóran hóp og auðvitað vilja allir leikmenn byrja. Hver einasti leikmaður leggur sig allan fram á æfingum en á endanum er það þjálfarinn sem ræður. Val hans er samt klárlega erfitt."

Augsburg hefur misst reynslumikla leikmenn eins og Halil Altintop og Paul Verhaegh. Alfreð er 28 ára og er tilbúinn að miðla af sinni reynslu sem hann hefur hlotið á ferlinum.

„Þetta þýðir að yngri leikmenn, ég meðtalinn, þurfa að axla meiri ábyrgð. Það eru margir ungir leikmenn að brjóta sér leið inn í liðið. Ég persónulega er tilbúinn að taka meiri ábyrgð og styðja yngri leikmenn eins mikið og ég get. Ég tel mig þegar hafa mikla reynslu sem ég get miðlað," segir Alfreð.

Sparkspekingar spá því að fallbarátta verði hlutskipti Augsburg á komandi tímabili.

„Þegar maður skoðar gæðin í liðunum sem komu upp, eins og Hannover og Stuttgart, þá veit maður að þetta verður hörð barátta í neðri hluta deildarinnar. Við reynum að ná í sigra og sjá hvert það tekur okkur."

Að lokum var Alfreð spurður út í föðurhlutverkið en fyrr á árinu varð hann faðir í fyrsta sinn.

„Allt hefur breyst en þetta er bara snilld. Að verða faðir er besta tilfinning í heiminum."
Athugasemdir
banner
banner