Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 17. ágúst 2017 20:25
Arnar Daði Arnarsson
Heimir um söluna á Flóka: Er og verður aldrei uppgjöf í FH
Kristján Flóki fagnar ekki meira með FH-liðinu inn á vellinum í sumar.
Kristján Flóki fagnar ekki meira með FH-liðinu inn á vellinum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Seint í gærkvöldi, innan við sólarhring fyrir Evrópuleik FH gegn portúgalska liðinu Braga var tilkynnt að FH hafi selt sóknarmann sinn, Kristján Flóka Finnbogason til Start í næst efstu deild í Noregi.

Heimir Guðjónsson þjálfari FH var spurður út í þessi vistaskipti eftir 2-1 tap liðsins gegn Braga í kvöld. Viðtalið er hægt að sjá hér.

„Þetta var ósköp einfalt. FH fékk frábært tilboð frá Start og Kristján Flóki vildi fara og reyna fyrir sér sem atvinnumaður. Ég sem þjálfari FH er ekki að fara standa í vegi fyrir því að ungir og efnilegir leikmenn fari út sem atvinnumenn," sagði Heimir og hélt áfram.

„Ég ætla að vona að honum gangi allt í haginn. Frábær drengur og hörku góður leikmaður. Myndi ég vilja hafa hann áfram? Já að sjálfsögðu. Hann hefur staðið sig mjög vel í sumar en svona er fótboltinn."

En var þetta gert í samráði við Heimi eða fékk hann engu um þetta ráðið?

„Ég ræð öllu í FH sem ég vil ráða."

Töluverð umræða hefur skapast um þessa sölu hjá stuðningsmönnum FH. Einhverjar hafa gengið svo langt og vilja meina að þetta sýni uppgjöf hjá félaginu sem er í harðri baráttu við Val og fleiri félög um Íslandsmeistaratitilinn og í Evrópukeppninni.

„Það er og verður aldrei uppgjöf í FH. Það er ósköp einfalt."

En er þetta rétt skref fyrir Kristján Flóka að fara í næst efstu deild í Noregi?

„Ég þekki Start liðið ekki nógu vel til að geta metið það."

Mældi Heimir Guðjónsson með því fyrir Kristján Flóka að fara til Start?

„Ég var sammála því að hann fengi að ráða því hvort hann færi eða yrði áfram. Ég var ekki með neinar sérstakar ráðleggingar varðandi Start," sagði Heimir að lokum.

Kristján Flóki flýgur til Noregs á morgun og hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir FH í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner