fim 18. janúar 2018 15:30
Elvar Geir Magnússon
Bellamy segir að Carroll hafi ekki hugarfar til að vera í Chelsea
Andy Carroll.
Andy Carroll.
Mynd: Getty Images
Craig Bellamy efast um að Andy Carroll, sóknarmaður West Ham, hafi rétta hugarfarið, þrána og vinnusemina til að spila fyrir stórlið.

Það kom mörgum á óvart þegar Carroll var skyndilega orðaður við Chelsea núna í janúarglugganum

Bellamy var hjá Newcastle þegar Carroll var að brjótast í aðalliðið og þeir spiluðu svo saman hjá Liverpool.

„Hann fór í ræktina og fann fyrir stífleika, þá ákvað hann að hann vildi ekki fara meira í ræktina. Eru meiðsli hans vegna þess að hann hugsar ekki nægilega vel um sig? Mér hefur fundist það vera málið með Andy," segir Bellamy.

„Mér finnst hann ekki hafa hugarfarið eða drifkraftinn sem þarf til að vera toppleikmaður, að vera í Chelsea eða Liverpool í meira en eitt tímabil."

Sumarið áður en Carroll fór til Liverpool var hann gagnrýndur fyrir að djamma of mikið en hann var duglegur að fara á ýmsar tónlistarhátíðir.

„Ég tel að hann hafi ekki lagt nægilega mikið á sig til að vera leikmaðurinn sem hann gæti verið. Hans styrkleiki á vellinum er í loftinu. Þar er erfitt að eiga við hann. En í almennu spili er erfitt að tengja við hann, hann sér ekki leikinn," segir Bellamy.

„Ef ég ber hann til dæmis saman við Jordan Henderson. Þegar Henderson var að fara í gegnum erfiða tíma æfði hann sífellt og var alltaf í ræktinni. Maður vissi að hann yrði toppleikmaður. Maður hugsaði aldrei þannig um Carroll."
Athugasemdir
banner
banner