Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fim 18. janúar 2018 18:30
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Valsmenn ætla ekki að gera sömu mistök og fyrir tíu árum
Sigurbjörn í leik með Val 2008.
Sigurbjörn í leik með Val 2008.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
„Þegar vel gengur er mikilvægt að hrófla í hlutunum og hrista í liðsheildinni svo hún þurfi aðeins að gerjast aftur," sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, í útvarpsþættinum Fótbolti.net fyrir áramót.

Valsmenn urðu Íslandsmeistarar með glæsibrag í fyrra en hafa styrkt sig enn frekar í vetur. Birkir Már Sævarsson, Kristinn Freyr Sigurðsson, Ívar Örn Jónsson og Ólafur Karl Finsen eru meðal leikmanna sem eru komnir.

Sigurbjörn segir að menn ætli ekki að gera sömu mistök og þegar Valur varð meistari 2007. Sigurbjörn var þá lykilleikmaður. Fyrir næsta tímabil var keyrt á sama hópnum og allt vannst á undirbúningstímabilinu.

„Við unnum öll mót (á undirbúningstímabilinu) og vorum að rúlla leikjum upp. Það var valið landslið og það voru einhverjir sjö úr liðinu í landsliðinu. Þannig var gírinn. En það er annað að spila undirbúningsleiki en Íslandsmótsleiki," segir Sigurbjörn.

Í fyrsta leik Íslandsmótsins tapaði liðið svo óvænt 5-3 gegn Keflavík.

„Það var djöfulsins sjokk. Þegar við vorum meistarar árið á undan var meðalaldurinn ansi hár, við vorum hundgamlir. Við treystum bara þessu dæmi en strax eftir fjóra leiki vorum við komnir á eftir. Eftir tímabilið 2007 hefðum við átt að fá einhverja tvo gæja sem voru hugsaðir sem byrjunarliðsmenn. Stuða allt helvítis batteríið."

„Við sögðum sömu brandarana og gerðum sömu hlutina. Þetta var allt niðurnjörvað."

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, þekkir það vel að viðhalda velgengni frá því hann stýrði sigursælu liði FH.

„Það sem FH gerði eftir að hafa verið meistari 2004 var að liðið mætti með miklu sterkara lið 2005. Við í Val vorum langnæstbesta liðið en áttum aldrei séns! FH náði í Tryggva, Auðun og Dennis Siim," segir Sigurbjörn og segir að hann og Ólafur hafi rætt um þessa gömlu tíma.

„Við ræddum að það þyrfti að fá stuðun inn í liðsheildina."

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Sigurbjörn
Athugasemdir
banner
banner
banner