Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 18. apríl 2014 23:15
Elvar Geir Magnússon
Rodgers: Gerrard bestur í Evrópu í þessari stöðu
Steven Gerrard og Brendan Rodgers.
Steven Gerrard og Brendan Rodgers.
Mynd: Getty Images
Steven Gerrard og Martin Skrtel.
Steven Gerrard og Martin Skrtel.
Mynd: Getty Images
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, telur að umræðan um leiðtogahæfileika Steven Gerrard hafi tekið fókusinn af magnaðri frammistöðu hans með liðinu. Rodgers segir að hann myndi ekki skipta á fyrirliða sínum og neinum miðjumanni Evrópu.

Liverpool er að berjast um sinn fyrsta meistaratitil síðan 1990 og hefur Gerrard leikið frábærlega á þessu ári síðan hann var settur í hlutverk „sitjandi miðjumanns".

„Leiðtogahæfileikarnir eru augljósir og hann smitar menn í kringum sig. Það hefur mikið verið í umræðunni en auga hans fyrir spili og tæknileg geta vilja oft gleymast. Það er staðreynd að hann er hugsanlega besti leikmaður Evrópu í þessari stöðu sem stendur," segir Rodgers.

„Það eru ekki margir leikmenn sem geta gert það sem hann er að gera. Hann var einn besti sóknarmiðjumaður Evrópu og fer svo í að verða einn sá besti varnarsinnaði. Ef þú horfir á aðra leikmenn í toppliðum í Evrópu sem spila þessa stöðu þá myndi ég ekki skipta á honum og neinum þeirra. Hann getur gefið liðinu ótrúlega mikið."

Þegar Rodgers tók við Liverpool árið 2012 talaði hann mikið um fjölhæfni Gerrard. Hann væri leikstjórnandi en gæti einnig varist.

„Það eru hæfileikaríkir menn í kringum hann sem geta fengið hann til að njóta sín. Líkamlegur styrkur hans er góður og hann getur stýrt spilinu," segir Rodgers.

Liverpool mætir Norwich á útivelli á sunnudag en ljóst er að miðja liðsins mun breytast þar sem Jordan Henderson afplánar fyrsta leikinn af þriggja leikja banni.

„Jordan er mjög heiðarlegur gaur og hann skilur að hann hafi fengið rauða spjaldið. Það var óheppni. En Jordan mun samt ferðast með liðinu. Hann er mikilvægur í hópnum, skiptir máli í klefanum og í ferðalögum. Hans verður saknað á vellinum en við megum ekki missa persónuleika hans."

Hér að neðan má sjá líkleg byrjunarlið fyrir leik Norwich og Liverpool en óvíst er hvort Daniel Sturridge geti spilað vegna meiðsla.

„Allir í hópnum hafa lagt sig fram á hverri æfingu en það eru bara 11 sem geta byrjað. Menn hafa hegðað sér faglega og haldið sér í formi ef kallið kemur. Lucas er eitt besta dæmið um þetta og Joe Allen líka. Þeir sem eru utan liðsins eru tilbúnir að hjálpa, ég hef engar áhyggjur af þeim þætti," segir Rodgers.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner