Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 18. apríl 2018 10:14
Magnús Már Einarsson
Yfirlýsing frá Gregg Ryder - Vill þjálfa áfram á Íslandi
Gregg Ryder.
Gregg Ryder.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Englendingurinn ungi Gregg Ryder hætti óvænt sem þjálfari Þróttar í síðustu viku en félagið sagði í yfirlýsingu að ástæða þess væri faglegur ágreiningur við stjórn.

Gregg hefur nú sent frá sér yfirlýsingu eftir starfslokin en þar kemur fram að hann vilji þjálfa áfram á Íslandi.

Yfirlýsingin frá Gregg
Ég vil byrja á því að þakka leikmönnum, starfsfólki og stuðningsmönnum Þróttar fyrir að gera mitt fyrsta starf sem aðalþjálfari meistaraflokks að stórkostlegri upplifun.

Þegar Jón Kaldal veitti mér tækifærið, haustið 2013, voru aðeins fimm leikmenn í liðinu með samning og liðið hafði naumlega bjargað sér frá falli. Í dag er hópurinn þéttskipaður frábærum leikmönnum og sterkum karakterum. Árangurinn undanfarin fjögur keppnistímabil sýnir að Þróttur Reykjavík er á meðal 15 bestu liða á Íslandi.

Í samvinnu við harðduglega og hæfileikaríka þjálfara yngri flokka Þróttar hefur tekist að leggja grunn að því viðhorfi og þeim starfsháttum sem munu ala af sér unga gæðaleikmenn á komandi árum. Meistaraflokkur er þegar farinn að njóta þeirra ávaxta.

Á tíma mínum hjá félaginu höfum við unnið marga frábæra sigra á vellinum. Eftirminnilegastur þeirra er sennilega leikurinn gegn Selfossi 2015, þegar við tryggðum sæti okkar í Pepsi-deildinni.

Þó stundirnar á vellinum séu mér kærar eru það þau tengsl sem ég hef myndað við leikmenn félagsins sem mér þykir vænst um. Ég mun einnig ylja mér við þær minningar að heyra nafn mitt kyrjað úr stúkunni af stuðningsmönnum félagsins. Það er einstök og hvetjandi upplifun, verandi útlendingur að þjálfa á Íslandi.

Ég hef lært meira á þessum tíma en hægt er að telja upp. Ég get satt að segja ekki beðið eftir því að taka þá þekkingu með mér í næsta þjálfarastarf sem ég tek að mér, hvar sem það verður. Ef næstu fjörutíu árin komast í hálfkvisti við síðustu fjögur, þá mun ég eiga frábæran feril. Ég vona að eitthvað sé til í þeirri tilfinningu minni að störf mín fyrir Þrótt hafi aukið vegsemd mína og virðingu sem þjálfari á Íslandi.

Mér hefur liðið frábærlega á Íslandi og hér hef ég fest rætur. Ég trúi því að ég hafi góða hluti fram að færa. Ég vil halda áfram að þjálfa á Íslandi.

Ég óska nýjum þjálfara, Gunnlaugi Jónssyni góðs gengis í sumar. Baráttukveðjur færi ég einnig leikmönnum Þróttar, starfsfólki og stuðningsmönnum. Sjáumst í stúkunni! Lifi Þróttur!

Gregg.
Athugasemdir
banner
banner