Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fös 18. ágúst 2017 13:45
Elvar Geir Magnússon
Verður Juventus ýtt úr stóli?
Upphitun fyrir ítölsku deildina
Paulo Dybala, lykilmaður Juventus.
Paulo Dybala, lykilmaður Juventus.
Mynd: Getty Images
Bonucci er kominn til AC Milan.
Bonucci er kominn til AC Milan.
Mynd: Getty Images
Massimiliano Allegri.
Massimiliano Allegri.
Mynd: Getty Images
Juventus hefur haft mikla yfirburði í ítölsku A-deildinni undanfarin ár. Sex ár í röð hefur titillinn verið þeirra. Sérfræðingar vilja þó meina að bilið niður í næstu lið sé klárlega að minnka.

Ítalska deildin fer af stað á morgun en ríkjandi meistarar mæta Cagliari í opnunarleiknum.

Juventus
Það er engin spurning að Juventus er sigurstranglegasta liðið. Það verður að hrósa liðinu fyrir að halda sér á toppnum svona lengi. Massimiliano Allegri hefur verið að gera frábæra hluti með gæðaleikmönnum í sínum hópi.

Juve hefur misst Arturo Vidal, Paul Pogba, Andrea Pirlo og Alvaro Morata síðustu ár. Fyrir þetta tímabil ákvað einn besti varnarmaður heims, Leonardo Bonucci, að ganga í raðir AC Milan eftir ósætti milli hans og Allegri. Í stað þess að hellast út í sjálfsvorkunn finnur Juventus alltaf öfluga arftaka.

Miralem Pjanic og Sami Khedira hafa verið öflugir á miðjunni og Paulo Dybala kom frá Palermo og varð samstundis stórstjarna. Gonzalo Higuain lét stuðningsmenn gleyma Morata. Mannabreytingar hafa kallað á taktískar breytingar en þar er Allegri svo sannarlega á heimavelli.

Juventus er hrikalega öflugt lið en gæti verið á leið í sína erfiðustu titilvörn. Við skulum skoða liðin sem horfa girndaraugum á toppsætið.

AC Milan
Fá félög hafa verið eins áberandi á félagaskiptamarkaðnum og AC Milan. Nýir eigendur frá Kína komu með aukið fjármagn og nú gæti liðið farið að berjast um toppsætið. Nýju leikmennirnir þurfa að aðlagast en sumir þeirra hafa aldrei áður leikið í Seríu A.

Vincenzo Montella virðist allavega hafa bætt varnarleikinn umtalsvert með því að fá Bonucci, Mateo Musacchio og Ricardo Rodriguez. Hakan Calhanoglu ætti að koma með ógn sem leikstjórnandi. Það verður spennandi að fylgjast með Milan í vetur.

Napoli
Napoli hefur haldið stöðugleika, ólíkt AC Milan. Lið sem teflir fram Dries Mertens, Marek Hamsik og Lorenzo Insigne í viku hverri er erfiður andstæðingur. Hvort liðið sé tilbúið að veita Juventus alvöru keppni um titilinn er þó ekki víst.

Roma
Rómverjar misstu Mohamed Salah til Liverpool en hafa styrkt sig með Gregoire Defrel og Cengiz Ünder. Í vörninni er nóg af nýjum andlitum; Hector Moreno, Aleksandar Kolarov, Bruno Peres og Rick Karsdorp. Þá er Maxime Gonalons mættur á miðjuna og býður upp á aðra kosti en Radja Nainggolan og Kevin Strootman. Edin Dzeko er enn á sínum stað en hann raðaði inn mörkum á síðasta tímabili.

Lazio
Í hreinskilni eru afar litlar líkur á að Lazio veiti Juventus samkeppni um toppsætið. Liðið hefur ekki nægilega mikla breidd. Það má þó ekki horfa framhjá því að liðið vann Juventus í leiknum um ítalska Ofurbikarinn síðasta sunnudag. Ekki afskrifa Simone Inzaghi og hans menn.

Líkleg í Evrópubaráttu
Atalanta kom á óvart á síðasta tímabili með því að enda í fjórða sæti. Liðið hefur þó misst tvo lykilmenn, Andrea Conti og Franck Kessie, báða til AC Milan.

Torino er enn með markahrókinn eftirsótta Andrea Belotti.

Svo verður að nefna Fiorentina, Inter og Sampdoria.

Fallbaráttan
Það er stór gjá milli A og B deildanna. Nýliðarnir SPAL, Benevento og Hellas Verona eiga erfitt tímabil framundan.

Bologna, Genoa, Chievo Verona og Crotone eru í mikilli hættu. Útlitið er bjartara hjá Cagliari, Udinese og Sassuolo en þau lið verða að vera á tánum.

Laugardagurinn 19. ágúst:
16:00 Juventus - Cagliari
18:45 Hellas Verona - Napoli

Sunnudagurinn 20. ágúst
16:00 Atalanta - Roma
18:45 Bologna - Torino
18:45 Crotone - AC Milan
18:45 Inter - FIorentina
18:45 Lazio - SPAL
18:45 Sampdoria - Benevento
18:45 Sassuolo - Genoa
18:45 Udinese - Chievo
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner