Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 18. september 2014 09:30
Elvar Geir Magnússon
Þorri Geir: Hefur verið einstakt sumar
Þorri Geir á æfingu fyrir fyrri leikinn gegn Inter.
Þorri Geir á æfingu fyrir fyrri leikinn gegn Inter.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í baráttunni gegn Inter á San Siro.
Í baráttunni gegn Inter á San Siro.
Mynd: Getty Images
Í leik gegn ÍBV í Garðabænum.
Í leik gegn ÍBV í Garðabænum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan í Garðabæ er í harðri baráttu við FH um Íslandsmeistaratitilinn. Miðjumaðurinn Þorri Geir Rúnarsson hefur spilað stórt hlutverk í Stjörnuliðinu en þessi 19 ára strákur hefur fyllt skarðið sem fyrirliðinn Michael Præst skildi eftir sig þegar hann meiddist.

Óhætt er að segja að Þorri hafi staðið sig frábærlega eftir að hafa verið kastað í djúpu laugina og hann öðlast ómetanlega reynslu þrátt fyrir að vera enn í 2. flokki.

„Fyrir tímabilið bjóst ég ekki við því að fá svona marga leiki en þegar þetta kemur upp með prestinn þá kemur maður inn í liðið. Þá er ekkert annað en að gera sitt besta og þetta hefur gengið þokkalega vel," segir Þorri sem virðist alveg óhræddur þó að hann sé skyndilega mættur á mun stærra svið.

„Maður hefur náð að vinna sig ágætlega inn í þetta. Ég stefni á að halda því áfram að bæta mig með hverjum leiknum og halda tempóinu áfram. Þetta hefur verið einstakt sumar og ómetanlegt tækifæri að fá að spila á móti liðum eins og Inter og Lech Poznan. Þetta hefur verið algjör snilld."

Reynsla sem mun hjálpa mér mikið
Þorri var í byrjunarliðinu í fyrri leiknum gegn Inter fyrir framan fullan þjóðarleikvang og kom svo inn sem varamaður á 64. mínútu á San Siro. Þrátt fyrir 6-0 sigur Inter í þeim leik var upplifunin mikil fyrir leikmenn Garðabæjarliðsins.

„Það var mjög gott að sjá hver munurinn er milli okkar hérna heima og þessara topp atvinnumanna úti. Það var áhugavert að upplifa það beint og mun koma til með að hjálpa mér mikið."

Þorri og félagar hans í 2. flokki Stjörnunnar tóku á móti Íslandsmeistarabikarnum á þriðjudaginn.

„Þetta var algjör snilld og mjög gaman að taka á móti bikarnum. Það er búið að vinna frábært starf í unglingastarfi félagsins undanfarin ár. Maður fékk snemma að fara upp og æfa með meistaraflokki og þetta telur allt saman á endanum. Þetta hefur gengið vel," segir Þorri.

Jóhann Laxdal, leikmaður Stjörnunnar, skrifaði um 2. flokk félagsins á Twitter og lýsti þeim sem flottum og efnilegum strákum sem eru líka með góða hæfileika að vera stórskrýtnir. Þorri hlær þegar hann er spurður út í þessa lýsingu.

„Það er eins og það gengur og gerist í fótboltahóp. Það eru allar týpurnar þarna á einu bretti og nóg af grillurum. Maður nefnir engin nöfn en þessar týpur gera þetta skemmtilegt," segir Þorri.

Það er öllum leikmönnum illa við að þurfa að lýsa sjálfum sér sem leikmanni en við stilltum Þorra upp við vegg.

„Ég er varnarsinnaður leikmaður og er grimmur. Ég tel mig góðan einn á einn og er fljótur að finna menn í sendingar. Þetta er það fyrsta sem mér dettur í hug en spurningin er gríðarlega erfið," segir Þorri sem horfir að sjálfsögðu til þess að spila erlendis.

„Það er auðvitað draumurinn að fara í atvinnumennsku sama hvernig það verður eða hvort það verður. Það er alltaf markmiðið en maður er aðallega að hugsa um það sem er í gangi í Stjörnunni núna. Maður tekur bara eitt skref í einu sem er."

Aldrei vanmeta víkinga
Stjarnan er tveimur stigum á eftir FH þegar liðin eiga fjóra leiki eftir. Þessi lið heyja einvígi um Íslandsmeistaratitilinn, titil sem Stjarnan hefur aldrei unnið. Einvígið gæti endað á úrslitaleik í lokaumferð þar sem liðin mætast einmitt í Kaplakrikanum.

Liðin verða í eldlínunni í dag þegar Stjarnan mætir Víkingi í víkinni og FH fær KR í heimsókn.

„Ég býst við mjög erfiðum og krefjandi leik í Víkinni. Þeir hafa verið virkilega öflugir í sumar og við þurfum að hafa varann á. Þetta eru náttúrlega víkingar og maður má aldrei vanmeta víkinga eins og Íslendingasögurnar segja okkur en við förum fullir sjálfstrausts í þennan leik," segir Þorri en leikurinn hefst klukkan 17.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner