Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 18. september 2017 21:35
Fótbolti.net
Einkunnir Íslands: Elín Metta best
Elín Metta var frábær í kvöld
Elín Metta var frábær í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stelpurnar okkar höfðu ástæðu til að gleðjast í leikslok
Stelpurnar okkar höfðu ástæðu til að gleðjast í leikslok
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur oft verið meira álag á þeim Glódísi og Guðbjörgu en þær brostu að sjálfsögðu breitt eftir leik
Það hefur oft verið meira álag á þeim Glódísi og Guðbjörgu en þær brostu að sjálfsögðu breitt eftir leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann í kvöld 8-0 sigur á Færeyjum í fyrsta leik undankeppni HM. Fyrirfram var ljóst að um ójafnan leik yrði að ræða og svo var raunin. Stelpurnar okkar höfðu yfirburði frá fyrstu mínútu og þetta var aðeins spurning um hversu stór sigur Íslands yrði.

Lokatölur urðu 8-0 þar sem allir leikmenn stóðu sig með prýði en höfðu mismikið að gera. Flott að byrja undankeppnina á stórum sigri og njóta þess að skora fullt af mörkum.

Einkunnir Íslands:

Guðbjörg Gunnarsdóttir - 6
Hafði nákvæmlega ekkert að gera í fyrri hálfleiknum. Fékk eina sendingu til baka í þeim seinni. Varð vonandi ekki mjög kalt.

Sif Atladóttir - 7
Stöðvaði þær tvær sóknir sem Færeyingar fóru í. Átti nokkur hættuleg innköst inn á teig. Annars lítið að gera.

Glódís Perla Viggósdóttir - 7
Átti nokkrar fínar skiptingar og var líklega með 100% sendinganýtingu. Mótstaðan þó lítil sem engin og það var lítið að gera varnarlega.

Ingibjörg Sigurðardóttir - 7
Það reyndi lítið á Ingibjörgu varnarlega í nýrri leikstöðu sem hægri bakvörður. Átti nokkrar fínar fyrirgjafir og tók mikinn þátt í sóknarleiknum. Fínn leikur fyrir varnarmanninn unga til að prófa sig áfram.

Hallbera Guðný Gísladóttir - 8
Vinstri bakvörðurinn átti þrjár stoðsendingar. Þurfti varla að bakka yfir á eigin vallarhelming og naut þess að einbeita sér að sóknarleiknum.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - 8
Þurfti lítið að hafa fyrir því að eiga miðjuna með Söru og Dagnýju. Var grimm þegar hún komst inná teig og skoraði tvö mörk.

Elín Metta Jensen - 8
Elín Metta setti tóninn strax í byrjun með laglegu marki. Bætti svo við öðru marki og stoðsendingu. Var gríðarlega ákveðin í sóknarleiknum og heldur áfram uppteknum hætti frá því í deildinni. Skorar og skorar.

Sara Björk Gunnarsdóttir - 7
Fyrirliðinn þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum í dag. Var mikið í boltanum, dreifði spilinu og skoraði gott skallamark eftir horn.

Dagný Brynjarsdóttir - 7
Hefur oft verið meira áberandi en gerði sitt vel þegar hún var með boltann. Höfum oft séð hana hættulegri í teignum.

Fanndís Friðriksdóttir - 8
Það fór ekki mikið fyrir henni í fyrri hálfleik en naut sín vel undir lok þess síðari og skoraði tvö mörk. Það seinna eftir stórkostlegt einstaklingsframtak ala Fanndís.

Agla María Albertsdóttir - 7
Var mikið í boltanum í fyrri hálfleik. Ógnaði og átti stoðsendingu. Getur gengið sátt frá leiknum þó hún hefði eflaust viljað skora.

Varamenn:
Sigríður Lára Garðarsdóttir - 6 ('66)
Sást lítið eftir að hún kom inná.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir - 7 ('79)
Átti góða innkomu og skoraði sitt annað mark fyrir íslenska landsliðið.

Sandra María Jessen - 7 ('79)
Kom inn af krafti og var nálægt því að skora.
Athugasemdir
banner
banner
banner