Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 18. september 2017 16:38
Magnús Már Einarsson
Pétur Viðars: Gerði mistök sem ég tek fulla ábyrgð á
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Ég gerði klárlega mistök sem ég tek fulla ábyrgð á. Þetta eru mistök og ég hefði ekki átt að gera þetta. Það er ekkert sem ég get gert í því núna," sagði Pétur Viðarsson, leikmaður FH, við Fótbolta.net í dag.

Pétur var harðlega gagnrýndur eftir atvik í fyrri hálfleik í 2-1 sigrinum á ÍBV í gær. Pétur lét sig þá falla til jarðar með tilþrifum í viðskiptum við Shahab Zahedi, leikmann ÍBV.

„Ég fann snertingu en snertingin var ekki mikil. Árið 2010 var ég rekinn út af fyrir svipaða snertingu. Þá fór Björgólfur (Takefusa) niður og fékk rautt spjald. Ég man vel eftir því atviki og það var leiðinlegt. Ég hugsaði í gær hvort ég myndi fá rautt spjald ef ég myndi standa og hann (Shahab) færi niður. Það var einhver svona hugsun í gangi."

Mikil umræða var á Twitter eftir rauða spjaldið auk þess sem fjallað var mikið um það í Pepsi-mörkunum.

„Ég sá þetta ekki fyrr en í morgun. Ég legg það ekki í vana minn að skoða fjölmiðlana eftir leiki. Ég fékk að heyra í morgun og á æfingu að umræðan var gífurleg."

„Það er kannski það skemmtilega við fótboltann. Það mega allir hafa sína skoðun og mér fannst þetta í hreinskilni vera sanngjörn umfjöllun. Auðvitað eru margir sem fara lengra í að tjá sig en aðrir og eru harðari en það er allt í lagi. Það er skemmtilegt að allir mega hafa sína skoðun,"
sagði Pétur.

Pétur fékk rauða spjaldið eftir leik gegn Stjörnunni á dögunum og hann var aftur í umræðunni í gær.

„Maður gerir mistök. Um daginn gerði ég mistök gegn Stjörnunni að vera í ýtingum eftir leik en maður verður að halda áfram. Það þarf að gleyma þessu og það er næsti leikur."

„Mér fannst leiðinlegt að heyra af þessari umræðu í morgun af því að við spiluðum góðan leik og Lenny (Steven Lennon) skoraði frábært mark í lokin. Ég hefði frekar viljað að umfjöllunin myndi snúast um það,"
sagði Pétur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner