Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 18. september 2017 18:45
Stefnir Stefánsson
Pepsi-deildin: Víkingur Reykjavík hafði betur gegn Ólafsvíkingum
Geoffrey Castillion skoraði tvívegis í dag.
Geoffrey Castillion skoraði tvívegis í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Víkingur Ó. 1 - 3 Víkingur R.
0-1 Geoffrey Castillion ('25)
0-2 Alexis Egea ('63, sjálfsmark)
1-2 Pape Mamadou Faye ('64)
1-3 Geoffrey Castillion ('77, víti)

Víkingur Reykjavík gerði góða ferð á utanvert Snæfellsnes þar sem þeir mættu nöfnum í Ólafsvík í frestuðum leik, en leikurinn átti upprunalega að fara fram í gær en fresta þurfti honum vegna veðurs.

Fyrir leikinn var Víkingur Reykjavík í 8. sæti deildarinnar með 23 stig á meðan að Ólsarar voru í því ellefta með 20 stig. Ljóst var að um væri að ræða gríðarlega mikilvægan leik fyrir þá í botnbaráttunni.

Eftir tíðindalitla byrjun átti Davíð Örn Atlason frábæra sendingu inn fyrir vörn heimamanna þar sem að Geoffrey Castillion brást ekki bogalistin og kom gestunum yfir eftir 25. mínútna leik.

Þannig var staðan þegar að ágætur dómari leiksins Guðmundur Ársæll flautaði til leikhlés.

Á 63. mínútu gerðist Alexis Egea sig sekan um slæm mistök þegar að misheppnuð tilraun hans til að skalla boltann frá marki endaði á því að fara yfir Christian í markinu og þaðan í netið. Gestirnir skyndilega komnir í 2-0 en Pape Mamadou Faye lét markið ekki á sig fá því hann svaraði fyrir heimamenn mínútu síðar.

Eftir markið færðu heimamenn sig ofar á völlinn og freistuðu þess að skora en á 77. mínútu braut Emir Dokara á Alex Frey Hilmarssyni innan teigs og vítaspyrna dæmd. Það kom í hlut Geoffrey Castillion að taka spyrnuna, hann skoraði nokkuð örugglega úr henni og gerði út um leikinn.

Fleiri urðu mörkin ekki og 3-1 sigur Reykjavíkur-Víkinga staðreynd. Ólsarar þurfa nú að treysta á að önnur lið misstígi sig í botnbaráttunni en liðið er í fallsæti með 20. stig einu stigi á eftir Fjölni og tveimur stigum á eftir ÍBV en bæði þessi lið eiga leik til góða.



Athugasemdir
banner
banner