Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mið 18. október 2017 13:41
Elvar Geir Magnússon
Þorsteinn Már í Stjörnuna (Staðfest)
Þorsteinn Már hefur mest skorað fimm mörk á einu tímabili í efstu deild.
Þorsteinn Már hefur mest skorað fimm mörk á einu tímabili í efstu deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson hefur gengið í raðir Stjörnunnar frá Víkingi Ólafsvík. Þetta staðfesti Victor Ingi Olsen hjá Stjörnunni í samtali við Fótbolta.net.

Samningur Þorsteins er út 2020.

Stjarnan hafnaði í öðru sæti Pepsi-deildarinnar á liðnu tímabili en Ólsarar féllu úr Pepsi-deildinni.

Þorsteinn er 27 ára en hann hóf ungur að leika fyrir Víking Ólafsvík og vakti strax athygli. Fyrir sumarið 2012 gekk hann í raðir KR og var í herbúðum félagsins út sumarið 2015.

Tvö síðustu tímabil hefur hann svo spilað með Ólsurum í Pepsi-deildinni. Í sumar skoraði hann þrjú mörk í 21 leik í Pepsi-deildinni.

Þrátt fyrir að vera sóknarmaður hefur Þorsteinn ekki verið þekktur fyrir mikla markaskorun en hann hefur mest gert fimm mörk á einu tímabili í efstu deild.

Þorsteinn er fyrsti leikmaðurinn sem Stjarnan fær til sín fyrir næsta tímabil. Victor segir að fleiri tíðinda sé að vænta úr Garðabæ á næstunni en Hafsteinn Briem, sem hefur yfirgefið ÍBV, er meðal leikmanna sem orðaðir eru við Garðabæjarfélagið.

Stjarnan missti á dögunum Ólaf Karl Finsen sem gekk í raðir Valsmanna.

Útlit er fyrir talsverðar breytingar hjá Víkingi Ólafsvík eftir fall liðsins í Pepsi-deildinni. Alfreð Hjaltalín hyggst spila í efstu deild eins og við greindum frá í morgun. Þá hefur enn ekki verið gefið út hvort Ejub Purisevic verði áfram þjálfari.


Athugasemdir
banner
banner
banner