Ingólfur Einarsson, hótelstjóri á Grand Hotel í Reykjavík, sagði í samtali við Fótbolta.net í dag að landslið Króatíu hafi ekki pantað bjór upp á herbergi hótelsins, en Vísir.is greindi frá í dag að átta landsliðsmenn hafi haldið fjöri gangandi aðfaranótt laugardag á hótelinu.
Samkvæmt heimildum Vísis þá héldu átta landsliðsmenn króatíska landsliðsins teiti uppi á hótelherbergi sínu á Grand Hotel eftir 0-0 jafntefli liðsins gegn Íslandi á föstudag og hafi um það bil 70 bjórar farið upp á herbergið.
Fjórir byrjunarliðsmenn króatíska liðsins áttu þar að hafa verið í átta leikmanna hópnum, en þar má nefna Darijo Srna, fyrirliða liðsins, Mario Mandzukic, Eduardo Da Silva og Vedran Corluka.
Hinir fjórir voru þeir Niko Kranjcar, Nikica Jelavic, Mateo Kovacic og Domagoj Vida. Eins og áður segir áttu þeir að hafa pantað 70 bjóra upp á herbergi auk þess sem haft var eftir sama heimildarmanni að mikil reykingalykt hafi fundist úr herberginu.
Ingólfur Einarsson, sem starfar sem hótelstjóri á Grand Hotel, segir að leikmenn króatíska liðsins hafi ekki verið með bjór skráðan á reikningnum, heldur einungis samlokur, gos og sælgæti.
Hann segir þá jafnframt að ekkert sé falið undir borði hjá Grand Hotel og að allt sé skráð á reikninga sé fjárfest í áfengi á barnum.
,,Það er allt frá A til Ö á hótelinu, við skráum allt á reikninga. Samlokur, gos og sælgæti var á reikningnum, annað ekki. Hér er allt uppi á borði og ekkert falið, við vinnum eftir settum reglum," sagði Ingólfur við Fótbolta.net í dag.
,,Annars var mikil stemmning á hótelinu á barnum hjá stuðningsmönnum Íslands og Króatíu, en leikmenn áttu þó ekki þátt í því," sagði hann að lokum.
Athugasemdir