Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 18. nóvember 2015 08:30
Ómar Vilhelmsson
Björn Bragi gefur út bók um landsliðið
Bókin er hin glæsilegasta en hér má sjá forsíðuna.
Bókin er hin glæsilegasta en hér má sjá forsíðuna.
Mynd: Aðsend
Í næstu viku kemur út vegleg bók um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu og leið þess í lokakeppni Evrópumótsins í Frakklandi. Höfundur bókarinnar er Björn Bragi Arnarsson og ber hún heitið Áfram Ísland - leiðin í lokakeppni EM 2016 og strákarnir sem gerðu drauminn að veruleika.

„Eins og flestir Íslendingar var ég hugfanginn af árangri landsliðsins í undankeppninni. Eftir að hugmyndin að þessari bók kviknaði fannst mér ekki hægt annað en að hrinda henni í framkvæmd. Ég var ekki í nokkrum vafa um að ég gæti gert mjög áhugaverða og skemmtilega bók um þessa stráka,“ segir Björn Bragi þegar hann er spurður út í hvers vegna hann réðst í þetta verkefni.

Hann vann bókina í samstarfi við Hilmar Gunnarsson, sem sá um hönnun og útlit, en allar myndir eru eftir Hafliða Breiðfjörð. „Bókin er myndræn og við lögðum mikið upp úr útliti hennar. Það er gaman að sjá þessar glæsilegu myndir frá ógleymanlegum augnablikum í undankeppninni á prenti,“ segir Björn Bragi.

Í bókinni eru allir leikir Íslands í undankeppninni teknir fyrir í máli og myndum, með ýmsum fróðleiksmolum og ummælum frá þeim sem komu við sögu. Þá eru greinar um alla leikmennina sem komu við sögu og þjálfarana Lars Lagerbäck og Heimi Hallgrímsson. „Við tókum á þriðja tug viðtala og það var virkilega gaman hvað strákarnir voru tilbúnir að hleypa okkur nálægt sér. Markmiðið var að leyfa lesendum að kynnast þeim betur en þeir gera í hefðbundnum íþróttaviðtölum og ég held að það hafi tekist vel,“ segir Björn Bragi.

Að auki er að finna ýmsa umfjöllun tengda landsliðinu, svo sem viðtöl við mömmur leikmanna, greiningu á hefðbundnum leikdegi landsliðsins og fyndnar sögur sem hafa átt sér stað bakvið tjöldin. „Ég vil auðvitað meina að þetta sé skyldueign fyrir allt knattspyrnuáhugafólk,“ segir Björn Bragi og hlær. „Ég held að allir sem hafa fylgst eitthvað með landsliðinu að undanförnu ættu að hafa gaman af henni. Foreldrar mínir voru að minnsta kosti ánægðir og þau hafa ekki mætt á völlinn síðan á síðustu öld.“
Athugasemdir
banner
banner
banner