Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 18. nóvember 2015 16:30
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: Squawka 
Draumaliðið sem fer ekki á EM: Kæmist upp úr riðli
Kolarov er lykilmaður hjá Englandsmeisturum Manchester City.
Kolarov er lykilmaður hjá Englandsmeisturum Manchester City.
Mynd: Getty Images
Robben kæmist í hvaða lið sem er.
Robben kæmist í hvaða lið sem er.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dzeko fer ekki á EM þrátt fyrir að vera meðal markahæstu manna undankeppninnar.
Dzeko fer ekki á EM þrátt fyrir að vera meðal markahæstu manna undankeppninnar.
Mynd: Getty Images
Draumalið þeirra leikmanna sem komust ekki áfram úr undankeppni fyrir EM í Frakklandi er gífurlega sterkt og myndi eflaust komast upp úr riðli á Evrópumótinu sjálfu.

Ellefu leikmenn úr sjö löndum eru í draumaliðinu þar sem Danir eiga flesta fulltrúa, eða þrjá. Serbar og Bosníumenn eiga tvo fulltrúa en önnur lönd eiga einn hvert.

Markvörður - Samir Handanovic (Slóvenía)
Handanovic er heimsklassamarkvörður og hefur verið lykilmaður í liði Inter síðustu ár. Slóvenar enduðu í þriðja sæti E-riðils, eftir Englandi og Sviss, og töpuðu fyrir Úkraínu í umspilinu.

Hægri bakvörður - Daniel Wass (Danmörk)
Danir komust, á einhvern ótrúlegan hátt, ekki á EM eftir jafntefli við Albaníu og Armeníu í riðlakeppninni og tap gegn Svíum í umspilinu. Wass, sem getur leikið í öllum stöðum á hægri vængnum, fékk lítið sem ekkert að spila í undankeppninni þrátt fyrir að gera góða hluti með Celta Vigo í spænska boltanum, þar sem hann er búinn að skora tvö og leggja upp tvö í tíu deildarleikjum.

Miðvörður - Sokratis (Grikkland)
Sokratis er lykilmaður hjá Borussia Dortmund í þýsku deildinni en það hefur alls ekki gengið jafn vel með gríska landsliðinu sem endaði á botni F-riðils eftir töp gegn Finnum og Færeyingum.

Miðvörður - Simon Kjær (Danmörk)
Annar Dani sem kemst í draumaliðið er Simon Kjær. Kjær hefur verið að gera vel með Fenerbahce í tyrknesku deildinni en ekki hefur gengið jafn vel hjá danska landsliðinu, sem hefur átt gríðarlega erfitt með að skora þrátt fyrir öflugan varnarleik.

Vinstri bakvörður - Aleksandar Kolarov (Serbía)
Þessi maður þarfnast engrar kynningar, en hann var í liði Serbíu sem var með allt niðrum sig í undankeppninni og fékk ekki nema sjö stig úr átta leikjum. Þrjú stig voru dregin af Serbíu sem endaði í næstneðsta sæti I-riðils, með fjögur stig.

Varnartengiliður - Miralem Pjanic (Bosnía og Hersegóvína)
Pjanic hefur verið stórkostlegur með Roma í ítölsku deildinni og algjör lykilmaður síðustu ár. Bosnía komst ekki á EM eftir tap í umspilinu gegn Írum, en liðið endaði í þriðja sæti sins riðils eftir Belgíu og Wales.

Varnartengiliður - Nemanja Matic (Serbía)
Matic hefur átt erfitt uppdráttar hjá Chelsea á tímabilinu og hefur hótað að hætta að spila með landsliðinu ef leikmenn þess breyta ekki hugarfari sínu. Þrátt fyrir það hefur Matic sannað sig sem einn af betri miðjumönnum knattspyrnuheimsins og kæmist eflaust í leikmannahóp hjá flestum liðum.

Sóknartengiliður - Christian Eriksen (Danmörk)
Enn einn Daninn mættur í draumaliðið, Eriksen er hágæða miðjumaður og lykilmaður hjá Tottenham en hefur ekki gert nægilega góða hluti með landsliðinu upp á síðkastið.

Hægri kantur - Arjen Robben (Holland)
Eini Hollendingurinn til að komast í liðið, Robben er í heimsklassa og væri algjörlega ómissandi leikmaður fyrir hvaða lið sem er. Hollendingar áttu hrikalega undankeppni, eins og okkur Íslendingum er vel kunnugt, og missti Robben af stórum hluta vegna meiðsla.

Vinstri kantur - Henrikh Mkhitaryan (Armenía)
Armenar fengu aðeins tvö stig í I-riðli þrátt fyrir að vera með stórstjörnu á borð við Mkhitaryan innanborðs. Mkhitaryan skoraði aðeins eitt mark í undankeppninni, en gæði samherja hans í Armeníu eru lægri heldur en gæðin í Borussia Dortmund þar sem miðjumaðurinn hefur skorað fimm mörk á tímabilinu.

Sóknarmaður - Edin Dzeko (Bosnía og Hersegóvína)
Dzeko er fyrirliði Bosníu og gerði átta mörk í níu leikjum undankeppninnar. Aðeins þrír leikmenn skoruðu meira heldur en Dzeko í undankeppninni en það eru Thomas Müller, Zlatan Ibrahimovic og Robert Lewandowski. Dzeko, sem gerði garðinn frægan hjá Wolfsburg og svo Manchester City, hefur þó aðeins gert tvö deildarmörk sem leikmaður Roma á þessu tímabili.
Athugasemdir
banner
banner