fim 18. desember 2014 14:00
Magnús Már Einarsson
„Þeir stærstu og mestu hafa aukið forskot sitt"
Svar við fyrirspurn í sérfræðingahorni Fótbolta.net
Peningurinn er mikill í fótboltanum.
Peningurinn er mikill í fótboltanum.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Manchester United fagna marki.
Leikmenn Manchester United fagna marki.
Mynd: Getty Images
Það er nóg til hjá Manchester City.
Það er nóg til hjá Manchester City.
Mynd: Getty Images
Harry Redknapp stjóri QPR.
Harry Redknapp stjóri QPR.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hefur opnað sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Hinn tvítugi Helgi Edvard Gunnarsson kom með áhugaverða spurningu um fjármálin í fótboltanum.

Björn Berg Gunnarsson og Gísli Halldórsson starfsmenn VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka sáu um að svara spurningunni

Kæru fótboltaunnendur, Ég tel mig ekki vera einan um þær áhyggjur mínar að fótboltinn er að verða meiri og meiri peningaíþrótt. Olíufurstar og businesskallar út um allan heim gera það að leik sínum að kaupa lið og dæla í þeim peningum eins og nokkurs konar life action fantasy fótbolti. Tala nú ekki um laun og söluverð leikmanna, sem virðast hækka með hverjum glugganum sem líður, sem dæmi hvers konar fordæmi var PSG að setja þegar þeir keyptu David Luiz, varnarmenn, á 50m punda?(sama verð og einn besti framherji heims á þeim tíma var seldur á, til Chelsea fyrir aðeins 3 árum) Spurning mín er nefnilega sú, hvar endar þetta launaþak í heimsboltanum? Hver er framtíðin ef horft er til núverandi ástands? Með hátíðiskveðju - Helgi Edvard Gunnarsson
Sæll Helgi.

Þetta er afar athyglisverð spurning og ekki auðsvöruð.

Stofnun ensku úrvalsdeildarinnar árið 1992 varð algjör vendipunktur í fjármálum íþróttarinnar. Síðan þá hefur sjónvarpið haft sífellt meira að segja í tekjum liða og hefur gríðarlegur vöxtur verið í þeim upphæðum sem sjónvarpsstöðvar eru tilbúnar að greiða fyrir útsendingarrétt. Einkum hefur vöxturinn verið áberandi í enska boltanum en nýlega sáum við umtalsvert stökk milli samninga í Þýskalandi, sem setið hefur eftir undanfarin ár.

Rekstur knattspyrnuliða er umfangsmikill fyrirtækjarekstur og eru fjármálin mun flóknari en fyrir 2-3 áratugum. David Gill tók yfir fjármál Manchester United árið 1997 og sambærilegir aðilar unnu að byltingu hjá Real Madrid, Barcelona, Bayern Munchen og öðrum heimsveldum boltans. Knattspyrnulið urðu dýrmæt vörumerki, farið var í æfingarferðir til vaxandi markaða á borð við Asíu og N-Ameríku til þess að auglýsa og kynna liðin en ekki eingöngu af knattspyrnulegum ástæðum. Gerðir voru risavaxnir auglýsinga- og samstarfssamningar við stórfyrirtæki og boltinn hélt áfram að rúlla. Vinsældir íþróttarnir jukust gríðarlega hratt sem jók eftirspurn eftir treyjum, miðum á völlinn og sjónvarpssýningum. Hagfræðilögmálið um framboð og eftirspurn gerði það svo að verkum að verðið á ofantöldum hlutum hefur hækkað með álíka ógnarhraða og verðmæti sjónvarpssamninga.

Þetta hefur líka orðið þess valdur að þeir stærstu og mestu hafa aukið forskot sitt. Ákveðnar deildir tekið algjört forskot á meðan neðri deildir landa og jafnvel efstu deildir annars staðar hafa algjörlega horfið í skuggann. Sums staðar hafa ákveðin lið skapað sér algjörlega sérstöðu í tekjumyndun, t.d. á Spáni þar sem Real Madrid og Barcelona deila með sér meirihluta sjónvarpstekna, en á Englandi er skiptingin mun jafnari.

Það er einnig afar athyglisvert að sjá hvernig tekjunum er varið. Launakostnaður knattspyrnuliða liggur sjaldnast undir 75% af heildarkostnaði og því er óhætt að segja að þessi mikla tekjuaukning liðanna skili sér að miklu leiti í vasa leikmanna liðanna. Þá má þó ekki gleyma þátttöku umboðsmanna í þessu ferli öllu, skemmst er að minnast ummæla Harry Redknapp á dögunum sem benti á á það að fyrir ekki svo löngu síðan komu óánægðir leikmenn á borð til sín beint og ræddu við sig. Í dag kvartar leikmaðurinn hinsvegar í umboðsmanninn sem síðan var með beina línu inn til stjórnarformannsins og kvartaði í honum.

Umræða um launaþak hefur gjarnan komið upp í þessu samhengi enda virðist slíkt fyrirkomulag geta virkað með ágætum í NBA og NFL deildum í Bandaríkjunum. Þakið hefur þó hækkað ansi hratt í báðum deildum og hefur því launaþróun þar alls ekkert setið eftir. Einnig er slík framkvæmd mun einfaldara þar enda tvær deildir sem eiga vart samkeppnisaðila. Það sama er ekki hægt að segja um knattspyrnu. Kjósi til dæmis ítalska deildin að setja upp harðar reglur með launaþak og kaup á leikmönnum er ansi hætt við því að bestu leikmenn deildarinnar fari einfaldlega yfir til Spánar, Þýskalands, Frakklands eða Englands þar sem ekkert launaþak er til staðar. Financial Fair Play reglurnar nýju hjá UEFA eru skref í átt að lausn sem gæti gengið en þær ganga út á að liðin verði að halda fjárhag sínum innan ákveðinna marka ella verði þeim refsað með því að fá ekki að kaupa leikmenn eða með synjun á þáttöku í keppnum UEFA.

Það verður að taka mið af því hvar knattspyrnan var stödd fyrir um tveim áratugum þegar þessi veldisvöxtur fór af stað. Í dag er knattspyrnan vinsælasta íþrótt heims með hundruð milljóna og jafnvel milljarða áhorfanda í hverri viku, sem margir eru tilbúnir að greiða háar upphæðir til að njóta áhugamáls síns. Hér á Íslandi þarf að punga út hátt í 20 þúsund krónum fyrir áskrift af helstu leikjum og annað eins til þess að kaupa treyju með sínu uppáhalds liði. Boltaferðir sem snúast um það eitt að fara á einn eða tvo leiki kosta hundruðir þúsunda.

Það liggur alveg ljóst fyrir að við erum nálægt okkar sársaukarþröskuldi hvað kostnað varðar. Vissulega eru enn tækifæri til vaxtar í Asía og N-Ameríku en eldri markaðir eru nokkuð mettaðir.

Knattspyrnuyfirvöld, eigendur liðanna og aðrir ráðamenn í knattspyrnuheiminum virðast flestir líta svo á að nauðsynlegt sé að koma böndum á kostnaðaraukningu og verður spennandi að fylgjast með hvaða aðgerðir skili árangri eða hvort vöxturinn heldur áfram hömlulaust.

Samkeppni mun væntanlega halda áfram að harðna á milli deilda, á milli liða og jafnvel gæti knattspyrnan sem íþrótt farið að finna fyrir samkeppni frá öðrum íþróttagreinum. Sjónvarpssamningar og aðrar stærðir í þessum heimi eru hinsvegar enn á upphækkandi kúrvu og því má reikna með að þessi þróun haldi eitthvað áfram en það kemur að því að þessi gríðarlega þensla getur ekki haldið áfram með sama hraða, markaðurinn fari að mettast og þessi þróun fari að staðna og jafnvel að snúa við.

Þegar öllu er á botninn hvolft má segja að ástæða síaukinna útgjalda til leikmannakaupa og launa sé vegna aukinna tekna, gríðarlegrar samkeppni og að sjálfsögðu aðkomu ríkra eigenda. Þessi mál og fleiri voru tekin fyrir á fundi VÍB og Fótbolta.net í vor um Fjármál í fótbolta sem sjá má hér
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner