Víkingur Reykjavík hefur gert tveggja ára samninga við Gunnlaug Hlyn Birgisson og Sindra Scheving.
Gunnlaugur er 22 ára gamall miðjumaður sem lék með Víkingi Ólafsvík síðastliðið sumar en hann á einnig að baki meistaraflokksleiki fyrir Fram og uppeldisfélag sitt Breiðablik. Þá var Gunnlaugur á mála hjá belgíska liðinu Club Brugge á árunum 2012 til 2014. Hann hefur leikið 21 leik og skorað 3 mörk fyrir U19 og U17 ára landslið Íslands.
Sindri Scheving er tvítugur vinstri bakvörður og kemur til Víkings frá Val. Hann var á láni hjá Haukum í Inkasso-deildinni síðastliðið sumar en á árunum 2014 til 2017 var spilaði hann fyrir unglingalið Reading í Englandi. Sindri á að baki 35 leiki og 1 mark fyrir U16, U17, U19 og U21 árs landslið Íslands.
Þeir Gunnlaugur og Sindri hafa verið að æfa með Víkingum í vetur og leikið með liðinu í Bose mótinu.
„Víkingur býður þessa ungu og efnilegu leikmenn velkomna í félagið," segir í tilkynningu frá Víkingum.
Víkingur endaði í áttunda sæti Pepsi-deildarinnar á liðnu sumri.
Athugasemdir