mán 19. janúar 2015 13:30
Magnús Már Einarsson
Hvernig breyttist AC Milan?
Svar við fyrirspurn í sérfræðingahorni Fótbolta.net
AC Milan hefur lítið fagnað undanfarin ár.
AC Milan hefur lítið fagnað undanfarin ár.
Mynd: Getty Images
Silvio Berlusconi eigandi AC Milan.
Silvio Berlusconi eigandi AC Milan.
Mynd: Getty Images
Inzaghi þjálfar AC Milan í dag.
Inzaghi þjálfar AC Milan í dag.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hefur opnað sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Árni Steinn kom með spurningu um AC Milan og Björn Már Ólafsson, sérfræðingur um ítalska boltann, fékk það verkefni að svara.


Hvernig breyttist AC Milan, og af hverju hættu þeir að vera þetta frábæra Evrópulið?
Dapurt gengi stórliðsins AC Milan á undanförnum árum kemur kannski mörgum á óvart, enda sögufrægt lið sem stóð sig vel á fyrsta áratug þessarar aldar, sérstaklega í Evrópukeppni. Það verður þó að koma fram að þótt Ancelotti hafi verið sérstaklega flinkur þjálfari í Meistaradeildinni, þá vann liðið aðeins einn Scudetto (deildartitil) í þjálfaratíð hans.

Hvað breyttist? Stærsti þátturinn er sennilega fjárhagslegi þátturinn. Liðið er enn í eigu Berlusconi, en hann hefur minnkað fjáraustur sinn í liðið mikið á síðustu árum. Þá lenti Ítalía illa í efnahagskreppunni og lið í deildinni geta ekki lengur keppt við önnur evrópsk lið um bestu leikmenn heims.

Þá hafa einnig margir bent á vandræði í yfirstjórn félagsins. Adriano Galliani er sá maður sem hefur séð um ráðningar á þjálfurum og leikmannakaup en síðan lenti hann uppi á kant við Berlusconi og forsætisráðherran fyrrverandi ákvað að ráða dóttur sína í yfirmannsstöðu hjá félaginu við hlið Gallianis. Margir Milan-menn hafa kallað á að í stað þess að skipta um þjálfara, sé sennilega tími til kominn til þess að gera breytingar á yfirstjórninni og fá inn ferskt blóð.

Eftir að Ancelotti fór frá félaginu hefur líka skort á uppbyggingu. Allegri, sem tók við af Ancelotti, gerði fína hluti til að byrja með og vann deildina. Síðan ætlaði félagið sér að fara í uppbyggingu og gefa ungum leikmönnum tækifæri, og var til dæmis Pirlo látinn fara frítt. Það bólaði hins vegar ekkert á uppbyggingunni og er ennþá töluvert af gömlum leikmönnum sem hafa munað fífil sinn fegurri. Brotthvarf Pirlos lítur líka afar klaufalega út, enda hefur hann sýnt að hann átti nóg eftir, og þeir sem fengnir voru til þess að fylla upp í skarð hans á miðjunni eru ekki nálægt því að vera í sama klassa og hann.

Eftir að Allegri fór til Juventus gerðu þeir tilraun með Seedorf sem þjálfara, en hann fékk ekki mikla þolinmæði hjá títtnefndum Galliani. Inzaghi tók síðan við, mörgum að óvörum og hann hefur heldur ekki náð skútunni á siglingu af krafti.

Á heildina litið er því ástæða fyrir lökum árangri AC Milan á undanförnum árum fjárhagsleg og skortur á skýrri framtíðarstefnu, bæði í þjálfara- og leikmannamálum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner