Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 19. janúar 2017 14:00
Fótbolti.net
Hvert er besta lið sem hefur fallið á Íslandi?
Valinn maður í hverju rúmi hjá ÍBV
Ómar Jóhannsson, ÍBV, skorar í leik gegn Víkingi í Vestmannaeyjum.
Ómar Jóhannsson, ÍBV, skorar í leik gegn Víkingi í Vestmannaeyjum.
Mynd: Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson svaraði spurningunni.
Sigmundur Ó. Steinarsson svaraði spurningunni.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Fótbolti.net er með sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Gísli Erlendur Marinósson kom með áhugaverða spurningu

Fótbolti.net fékk Sigmund Ó. Steinarsson, fyrrum blaðamann á Morgunblaðinu til að svara henni.

Hvert er besta liðið sem hefur fallið úr efstu deild karla á Íslandi?
Að mínu mati er lið Íþróttabandalags Vestmannaeyjar, ÍBV, sem féll úr efstu deild 1983 á sögulegan hátt - sterkasta liðið sem hefur fallið úr deildinni. ÍBV bjargaði sér frá falli með því að gera jafntefli við Breiðablik í Eyjum, 2:2, en þá kom í ljós að Eyjamenn höfðu teflt fram leikmanni, Þórði Hallgrímssyni, sem var í leikbanni. Það varð til þess að leikurinn var dæmdur ÍBV tapaður þar sem ólöglegur leikmaður tók þátt í leiknum - og þar með féll ÍBV, 16 stig og ÍBÍ, 13 stig. Keflvíkingar, 17 stig, héldu þá sæti sínu.

Eyjaliðið var afar vel mannað og má segja að valinn maður hafi verið í hverju rúmi, en þetta ár var hart barist í mjög jafnri deild. ÍA fagnaði sigri - með 24 stig, en KR var í öðru sæti með 20 stig, þá komu fjögur lið með 18 stig og tvö með 17 stig.

Aðalsteinn Jóhannesson stóð í marki ÍBV-liðsins, sem var skipað miklum baráttu- og stemningsleikmönnum, sem voru óútreiknanlegir. Varnarmenn voru Viðar Elíasson, Valþór Sigþórsson, Þórður Hallgrímsson og Snorri Rútsson. Á miðjunni var hinn stórefnilegi Hlynur Stefánsson og við hlið hans léku Sveinn Sveinsson or Ómar Jóhannsson. Í fremstu víglínu voru Tómas Pálsson, Kári Þorleifsson og Jóhann Georgsson.
Þjálfari liðsins var Englendingurinn Steve Fleet.

Þess má geta að ÍBV lék til úrslita í Bikarkeppni KSÍ þetta sumar og varð að sætta sig við tap fyrir Íslandsmeisturum ÍA, 1:2.

Smelltu hér til að sjá eldri fyrirspurnir í sérfræðingahorninu
Athugasemdir
banner
banner