Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fim 19. janúar 2017 14:38
Elvar Geir Magnússon
Van Basten með bilaðar hugmyndir um að breyta fótbolta
Vægast sagt áhugaverðar hugmyndir hjá Van Basten.
Vægast sagt áhugaverðar hugmyndir hjá Van Basten.
Mynd: Getty Images
Van Basten er goðsögn úr boltanum.
Van Basten er goðsögn úr boltanum.
Mynd: Getty Images
Marco van Basten, fyrrum sóknarmaður hollenska landsliðsins og AC Milan, er nú starfandi hjá FIFA. Hann er nú að hugsa um mögulegar breytingar á reglunum í vinsælustu íþrótt heims, fótbolta.

Í gær opinberaði Bild tíu hugmyndir sem Van Basten er með til skoðunar um að breyta leiknum. Óhætt er að segja að þetta séu margar hverjar ansi byltingakenndar hugmyndir.

„Við þurfum alltaf að vera með það í huga hvort við getum með einhverjum hætti gert fótbolta áhugaverðari. Hvort það sem við bjóðum áhorfendum upp á sé nægilega eftirsóknarvert," segir Van Basten.

Hér eru allavega hugmyndirnar og við viljum klárlega fá að vita þína skoðun á þeim í ummælakerfinu.

1. Hætta með rangstöðu
„Ég er mjög spenntur að sjá hvernig fótbolti myndi virka án rangstöðu. Ég óttast að margir séu mótfallnir þessum hugmyndum en ég er hlynntur þeim. Þetta gæti gert fótboltann áhugaverðari, sóknarmenn myndu fá betri færi og fleiri mörk yrðu skoruð. Það er það sem áhugafólk vill sjá," segir Van Basten.

2. Tímabundin brottvísun í stað gulra spjalda
„Í staðinn fyrir áminningu eru menn sendir í fimm eða tíu mínútna hvíld. Það hræðir leikmenn. Það er erfitt að vera 10 gegn ellefu, hvað þá 8 eða 9."

3. Einn gegn einum í staðinn fyrir vítaspyrnur
„Í stað vítaspyrnukeppni eins og við þekkjum í dag myndu leikmenn fara einn gegn markverði, byrja sóknina 25 metrum frá marki. Það þarf að klára færið innan átta sekúndna og markvörður má ekki fara úr vítateignum. Þetta er magnað fyrir áhorfendur." (Sjá myndband neðst í frétt)

4. Tíminn stöðvaður síðustu 10 mínútur leiktímans
Hugsað til að koma í veg fyrir að lið tefji. „Boltinn verður að vera í leik síðustu tíu mínúturnar. Þegar lið er að vinna og stutt til leiksloka gerir það allt sem það getur til að éta upp leiktímann, meðal annars með skiptingum."

5. Ótarkmaðar skiptingar
Eins og þekkist í handbolta. Leikmenn geta farið út og inn aftur eins og vilji er til. „Mögulega bara í yngri flokkum. Það þarf líka að huga að dómaranum sem verður alltaf að vita hver er inni á vellinum."

6. Fleiri en þrjár skiptingar
„Ókostur er að þetta tefur leikinn frekar. Við höfum einnig rætt um að bæta við einni eða tveimur skiptingum ef leikur er framlengdur. Ég er hlynntur því en þetta má ekki koma niður á flæði leiksins."

7. Bara fyrirliðinn má spjalla við dómarann
„Það drepur tímann að vera að tuða í dómaranum. Í sumum leikjum er of mikið af þessu. Í ruðningi má bara fyrirliðinn tala við dómarann. Það er góð hugmynd."

8. Hámarks fjöldi brota
„Ef varnarmaður er búinn að brjóta fimm sinnum af sér má hann ekki taka frekari þátt í leiknum, sama og í körfubolta."

9. Átta gegn átta á minni velli
„Við eigum að halda okkur við 11 gegn 11 á stórum velli í atvinnumanna fótbolta. En í yngri flokkum og hjá 45 ára og eldri er 8 gegn 8 á minni velli fullkomið. Það býður upp á skemmtilegri leik."

10. Setja reglur um hámarks leikjafjölda
„Það er þegar mikið peningaflæði í fótboltanum svo við þurfum ekki fleiri leiki. Það á að hjálpa leikmönnum eins og Ronaldo, Messi og Zlatan að halda sér ferskum líkamlega og andlega með því að fækka leikjum. Þetta eru leikmennirnir sem stuðningsmennirnir vilja sjá."



Athugasemdir
banner
banner
banner