Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 19. febrúar 2018 20:30
Ívan Guðjón Baldursson
Bonucci: Ronaldo erfiðasti andstæðingurinn
Mynd: Getty Images
Leonardo Bonucci skipti úr Juventus og fór til AC Milan síðasta sumar. Bonucci var gríðarlega eftirsóttur en valdi Milan því hann hefur trú á verkefninu sem er í gangi þar.

Bonucci verður 31 árs í maí og er talinn til allra bestu miðvarða heims. Hann var lengi varafyrirliði Juventus og ítalska landsliðsins en er í dag fyrirliði Milan. Hann verður að öllum líkindum næsti fyrirliði Ítalíu.

Tímabilið fór ekkert sérlega vel af stað hjá Milan en liðið er búið að rétta úr kútnum og hefur verið að spila mjög vel undir stjórn Gennaro Gattuso.

Bonucci viðurkennir að hann hafði efasemdir til að byrja með en þær hafi allar horfið skömmu eftir jól þegar liðinu byrjaði að ganga betur.

Milan tapaði fyrir Atalanta 23. desember en hefur ekki tapað í þeim níu leikjum sem hafa verið spilaðir síðan.

„Það var erfið ákvörðun að skipta yfir til Milan. Það var erfitt að taka skref til baka og gefa Meistaradeildina upp á bátinn," sagði Bonucci við Radio 105.

„Við höfum ekki átt jafn gott tímabil og við höfðum vonast eftir en erum þrátt fyrir það í góðri stöðu í Evrópudeildinni og bikarnum. Við getum farið alla leið þar."

Bonucci segir Alessandro Nesta vera fyrirmynd sína í knattspyrnuheiminum og telur Cristiano Ronaldo vera erfiðasta andstæðing sem hann hefur mætt.

„Erfiðasti andstæðingur sem ég hef mætt er Cristiano Ronaldo. Hann skorar í hvert einasta skipti sem ég spila við hann. Hann og Lionel Messi eru í sér gæðaflokki."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner