Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 19. febrúar 2018 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bernardo Silva er ósnertanlegur
Mynd: Getty Images
Það er hörð samkeppni um byrjunarliðssæti hjá Manchester City. Raheem Sterling og Leroy Sane byrja yfirleitt á köntunum en Bernardo Silva hefur komið afar sterkur inn undanfarið.

Enginn hefur tekið þátt í jafn mörgum leikjum fyrir Man City á tímabilinu og Silva, sem hefur komið við sögu í 39 af 41 leik hingað til.

Pep Guardiola, stjóri City, hefur miklar mætur á leikmanninum og segir hann vera ómissandi part af leikmannahópnum.

„Bernardo hefur staðið sig frábærlega, ég er ótrúlega ánægður með vinnuframlagið og gæðin sem hann býr yfir," sagði Pep.

„Hann verður hjá félaginu í langan tíma. Meðan ég er stjóri hérna þá er Bernardo ósnertanlegur. Hann er ungur og alltaf í góðu skapi, hann er ótrúlega hæfileikaríkur knattspyrnumaður og það líkar öllum vel við hann. Hann passar fullkomlega inn í lífið hér í Manchester."

Það tók Silva nokkra mánuði að laga sig að enska boltanum en núna er hann búinn að skora fjögur og leggja sjö upp í síðustu sautján leikjum sínum fyrir félagið. Til samanburðar er Sterling búinn að skora sjö og leggja fimm upp í jafn mörgum leikjum.

Silva er 23 ára gamall Portúgali. Hann á 22 leiki að baki fyrir land sitt og varð Evrópumeistari í Frakklandi sumarið 2016.

Hann var keyptur frá Mónakó fyrir um 50 milljónir evra síðasta sumar. Hann getur leikið á miðjunni og úti á kanti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner