Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 19. febrúar 2018 12:30
Elvar Geir Magnússon
Leigubílaræningjarnir sleppa með skrekkinn
Leigubíllinn á myndinni er ekki sá sem leikmennirnir rændu.
Leigubíllinn á myndinni er ekki sá sem leikmennirnir rændu.
Mynd: Getty Images
Leikmennirnir fjórir sem hafa beðist afsökunar eftir að hafa rænt leigubíl í æfingaferð West Bromwich Albion á Spáni fá ekki refsingu frá spænskum lögregluyfirvöldum.

Jonny Evans, Gareth Barry, Jake Livermore og Boaz Myhill rændu leigubíl og keyrðu hann frá McDonald's veitingastað og á hótelið sitt. Leigubílstjórinn sjálfur var inni á veitingastaðnum.

Lögreglan á Spáni skrifaði skýrslu um málið en ákveðið hefur verið að láta það niður falla vegna skorts á sönnunargögnum. Ef ný sönnunargögn koma upp gæti málið verið opnað á ný.

Talið er að leigubílstjórinn hafi hætt við að leggja fram kæru.

„Eitthvað hefur orðið til þess að leigubílstjórinn ákvað að fara ekki með málið lengra. Það var hann sem fékk starfsfólk McDonald's til að hringja á lögregluna þegar hann uppgötvaði að leigubíllinn væri horfinn," segir heimildarmaður Mirror.

Leikmennirnir fjórir brutu útivistarreglur West Brom með því að skella sér út á lífið en þeir máttu ekki vera úti eftir miðnætti. Þeir voru mættir á McDonald's klukkan hálf sex um morguninn.

Eins og áður sagði báðust leikmennirnir afsökunar en Evans hefur verið sviptur fyrirliðabandinu. West Brom tapaði fyrir Southampton í bikarnum um helgina og getur nú einbeitt sér að reyna að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner