mán 19. mars 2018 14:30
Magnús Már Einarsson
Shaw íhugar framtíð sína hjá Man Utd - Ósáttur við Mourinho
Luke Shaw á sprettinum.
Luke Shaw á sprettinum.
Mynd: Getty Images
Vinstri bakvörðurinn Luke Shaw ætlar að íhuga framtíð sína hjá Manchester United í sumar eftir að hafa fengið sig fullsaddan af gagnrýni frá knattspyrnustjóranum Jose Mourinho.

Shaw var tekinn af velli í hálfleik í bikarsigrinum á Brighton um helgina en Mourinho gagnrýndi hann harðlega eftir leik og sagði að hann hefði ekki fylgt taktískum skipunum sínum.

Shaw kom til Manchester United frá Southampton á 27 milljónir punda árið 2014 en hann er samningsbundinn til sumarsins 2019.

Shaw hefur einungis leikið sjö leiki í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en Ashley Young hefur verið tekinn fram yfir hann í vinstri bakvörðinn.

„Meðhöndlun Mourinho á Luke er algjörlega skammarleg. Ef það eru einhver vandræði í gangi þá er betra að halda því innanhúss," sagði ónefndur heimildarmaður Sky sem þekkir Shaw vel.

„Ef að svona ofbeldi ætti sér stað á einhverjum öðrum vinnustað þá væri hægt að hóta viðkomandi aðila uppsögn. Þetta er ógeðslegt."

„Fyrir nokkrum vikum var Mourinho að hrósa honum en nú virðist hann ekki geta gert neitt rétt. Luke er sterkur strákur og lætur Mourinho ekki eyðileggja líf sitt. Hann skoðar framtíð sína í sumar en hann er ennþá ákveðinn í að vera í enska landsliðshópnum sem fer á HM í Russlandi."

Athugasemdir
banner
banner
banner