Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 19. apríl 2014 18:52
Brynjar Ingi Erluson
Mourinho: Ég vil óska Mike Dean til hamingju með frammistöðuna
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea á Englandi, vandaði Mike Dean, dómara, ekki kveðjurnar eftir 1-2 tap gegn Sunderland í dag.

Sunderland hafði betur gegn Chelsea í dag á Stamford Bridge en þetta var fyrsta tap Mourinho í ensku úrvalsdeildinni á heimavelli.

Chelsea tapaði þarna þremur mikilvægum stigum í titilbaráttunni en Liverpool er með tveggja stiga forskot með leik til góða á meðan Manchester City er fjórum stigum á eftir Chelsea með tvo leiki til góða.

Mourinho var ósáttur með Mike Dean, dómara leiksins í dag, en hann dæmdi vítaspyrnu á 82. mínútu er Jozy Altidore var felldur af Cesar Azpilicueta.

,,Svar mitt er einfalt. Ég vil óska mínum leikmönnum til hamingju, þeir reyndu allt og skildu allt eftir á vellinum. Ég vil einnig óska Sunderland til hamingju með sigurinn og þessi mikilvægu stig, það skiptir ekki máli hvernig eða af hverju þeir unnu leikinn," sagði Mourinho.

,,Ég vil óska Mike Dean, dómara leiksins, einnig til hamingju með hans frammistöðu því hún var ótrúleg og að lokum vil ég þakka Mike Riley, yfirmanni dómaramála, fyrir það hvernig hann skipuleggur með dómurunum svo þeim gangi sem allra best í þeirra verkefnum," sagði Mourinho, eflaust í afar miklum kaldhæðnistón.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner