lau 19. maí 2018 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bojan opnar sig varðandi andleg veikindi sín
Bojan Krkic.
Bojan Krkic.
Mynd: Getty Images
Miklar vonir voru bundnar við Bojan Krkic þegar hann var að koma upp hjá Barcelona, var honum líkt við Lionel Messi og aðrar goðsagnir. Hann náði hins vegar aldrei þeim hæðum sem menn héldu að hann myndi fara í.

Bojan er í dag samningsbundinn Stoke en hann varði seinni hlutanum á tímabilinu sem er að líða hjá Alaves á Spáni.

Í mikilvægu viðtali við Guardian opnar hann sig varðandi kvíðaröskun sem hann hefur verið í glímu við.

„Þetta gerðist allt mjög fljótt," segir Bojan þegar hann talar um feril sinn. Þegar hann var að koma upp hjá Barcelona var honum mikið líkt við Messi, það var ekki að hjálpa.

„Það er margt sem fólk veit ekki. Ég fór ekki á EM 2008 með Spáni vegna kvíðavandamála," segir hann, en í spænskum fjölmiðlum var sagt að hann hefði hafnað spænska landsliðinu. Hann fékk skítkastið yfir sig en var of hræddur við að tjá sig.

„Þegar ég átti að spila fyrsta landsleikinn fyrir Spán var sagt að ég gæti ekki spilað vegna þess að ég væri með maga- og þarmabólgu, þegar ég var í rauninni í kvíðkasti. En enginn vill tala um það. Fótboltaheimurinn hefur ekki áhuga."

„Kvíði hefur mismunandi áhrif á fólk. Ég hef talað við mann sem sagði við mig að það væri eins og hjartað hans væri að taka þúsund slög á mínútu. Hjá mér hefur það verið þannig að ég finn fyrir svima og veikindum, stanslaust, allan daginn."

Bojan er 27 ára gamall og ætlar ekki að hætta í fótbolta strax. „Ég elska fótbolta og enginn mun nokkurn tímann taka það frá mér. Þú verður að vera sterkur í gegnum erfiðu tímana. Ég er enn ungur, ég nýt þess að spila og ætla ekki að hætta því strax."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner