Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 19. júní 2017 13:00
Elvar Geir Magnússon
Aron Róberts: Þeir sem gátu ekki safnað í snúðinn voru að væla
Aron fékk ekki sénsinn hjá Keflavík og gekk þá í raðir Grindavíkur þar sem hann hefur blómstrað.
Aron fékk ekki sénsinn hjá Keflavík og gekk þá í raðir Grindavíkur þar sem hann hefur blómstrað.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Aron klipptur í klefanum eftir leik í gær.
Aron klipptur í klefanum eftir leik í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Aron Freyr Róbertsson hefur leikið mjög vel í bakverðinum fyrir spútniklið Grindavíkur í Pepsi-deildinni það sem af er tímabili.

Eftir sigur Grindvíkinga á ÍBV í gær fékk þessi ungi leikmaður klippingu en liðsfélagar hans klipptu af honum „snúðinn" í klefanum. Myndband af því má sjá neðst í fréttinni.

Fótbolti.net heyrði í Aroni í dag og spurði hvernig tilfinningin væri að vera laus við snúðinn?

„Tilfinningin er bara helvíti góð en þetta er tilbreyting. Við gerðum veðmál eftir leikinn gegn Víkingi Reykjavík. Ef við myndum ná 15 stigum eftir 8 umferðir myndi snúðurinn fjúka. Þessir strákar sem hafa ekki náð að safna í snúðinn hafa verið að væla út í þetta," segir Aron.

Liðsfélagi Arons, Andri Rúnar Bjarnason, sagði við fjölmiðla í gær að Aron ætti á hættu að missa starf sitt þar sem hann vinnur hjá Joe and the Juice þar sem samskonar hárgreiðsla er ansi algeng.

„Vinnuveitendunum leist ágætlega á þetta," segir Aron sem heldur allavega starfinu.

Viljum þrjú stig úr öllum leikjum
Grindvíkingar eru tveimur stigum á eftir toppliði Vals og hafa komið nær öllum fótboltaáhugamönnum skemmtilega á óvart.

„Þetta hefur klárlega verið ævintýri. Við vissum samt alveg hvað við getum. Þetta eru allt strákar sem eru góðir í fótbolta. Það kemur okkur sjálfum ekkert hrikalega á óvart að við séum að standa okkur vel en það kemur vissulega á óvart að við séum í öðru sæti eftir átta umferðir."

Aron segir að það sé ekki annað hægt en að vera með sjálfstraustið í hæstu hæðum meðan gengið er svona. Hann sjálfur hefur leikið mjög vel og var í U21-landsliðinu sem mætti Englandi á dögunum.

„Það kom manni á óvart að vera valinn í hópinn. En ég er mjög ánægður með að fá mínar mínútur, þetta er reynsla," segir Aron sem vill ekki vera með neinar yfirlýsingar um hversu langt Grindavík getur farið í sumar.

„Fyrsta markmið var að halda sér uppi, þegar líður á þetta kemur þetta betur í ljós. Við viljum þrjú stig úr öllum leikjum."

Fékk ekki sénsinn hjá Keflavík
Aron er úr Garðinum en gekk í raðir Grindavíkur frá Keflavík í mars í fyrra.

„Ég hafði verið í Keflavík allt frá því að ég var í 4. flokki. Síðan var ég búinn að fara í lán til Njarðvíkur í 2. deildina. Ég var ekki að fá sénsinn í Keflavík. Ég fékk að prófa hjá Grindavík og það sem Óli og Janko eru að gera hentaði mér vel. Ég er mjög ánægður með þetta skref," segir Aron.

Umtalaðasti fótboltamaður landsins í dag er Andri Rúnar sem er kominn með níu mörk í Pepsi-deildinni. Hvernig er að spila með honum í liði?

„Hann má ekki sjá markið. Ef maður lítur af honum þá er hann mættur upp í stúku að fagna. Hann er geggjaður og það er magnað að sjá hvað hann hefur lagt á sig og uppsker eftir því. Við höfum allir í liðinu lagt mikið á okkur og það er að skila sér."

Andri Rúnar um klippinguna:


Myndband úr klefanum eftir leik í gær:
Brjálað stuð í klefa Grindavíkur - Aron klipptur eftir leik
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner