Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, var að sjálfsögðu ánægður með sína menn eftir 3-0 sigur gegn KR. Má segja að hans menn hafi verið að svara gagnrýnisröddum?
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 0 KR
„Ég vona að það sé enginn með óbragð í munninum. Við gagnrýnum hvern annan innan frá og það sem er sagt fyrir utan liðið kemur okkur ekki við," sagði Ólafur en hans lið spilaði 3-5-2 leikkerfi í kvöld.
„Stundum þarf að grípa til einhvers sem er öðruvísi. Þetta er reyndar keimlíkt því sem við spiluðum í Evrópukeppninni í sumar. Mönnum líður vel í þessu. Þetta skapar ákveðið öryggi og gefur breidd. Ég er ánægður með hvernig þetta spilaðist,"
Árni Vilhjálmsson var maður leiksins. Skoraði eitt og lagði annað upp.
„Mér fannst frammistaða hans virkilega góð. Hann hefur verið góður í sumar. Komið sér í færi og skorað mörk. Aðalmálið hjá Árna er að núllstilla sig eftir þennan leik og vera klár í þann næsta," sagði Ólafur. Ætti Árni að vera í U21-landsliðinu?
„Ég vel ekki U21-landsliðið. Ef hann kemur með svona frammistöðu í hverjum einasta leik ætti hann að eiga möguleika á að komast í hópinn."
Breiðablik á enn möguleika á Evrópusæti en til að halda vonunum á lífi þarf liðið sigur gegn Stjörnunni á sunnudag.
„Þessi sigur telur ekkert ef við komum ekki með frammistöðu á sunnudaginn. Þessi sigur gefur okkur líflínu. Það hefði verið fúlt að vera búinn með mótið núna."
Viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir