fös 19. september 2014 15:00
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Höfum úrslitaleikinn einan á sviðinu
Magnús Már Einarsson
Magnús Már Einarsson
FH og Stjarnan berjast um Íslandsmeistaratitilinn.
FH og Stjarnan berjast um Íslandsmeistaratitilinn.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Íslandsmótinu lýkur 4. október næstkomandi þegar 22. umferðin í Pepsi-deild karla fer fram. Frá því um mitt sumar hef ég vonast til að sjá úrslitaleik á milli FH og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn í lokaumferðinni. Það er eitthvað sem Pepsi-deildin þarf á að halda!

Mætingin í Pepsi-deildinni hefur oft verið betri en í sumar en það að fá úrslitaleik í lokaumferðinni er eitthvað sem menn eiga eftir að muna eftir um ókomin ár og mun verða eftirminnilegasti parturinn af fótboltasumrinu 2014.

Sjálfur var ég 9 ára gamall þegar ÍBV lagði KR 2-0 í úrslitaleik um titilinn í lokaumferðinni árið 1998 en ég man samt vel eftir þeim leik. Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar Ingi Sigurðsson (síðar bæjarstjóri í Vestmannaeyjum) náði að vippa boltanum yfir Gunnleif Gunnleifsson í marki KR og koma ÍBV yfir snemma leiks áður. Ég rifjaði þetta einmitt upp með Jóni Ingasyni, leikmanni ÍBV og syni Inga, fyrr í sumar. Jón mundi reyndar lítið eftir þessu enda var hann þriggja ára á þessum tíma. Jón hafði þó eins og flestir Eyjamenn ótal sinnum heyrt talað um þennan leik, enda einn af eftirminnilegri leikjum í sögu Íslandsmótsins.

Langt er síðan að síðast var möguleiki á úrslitaleik í lokaumferðinni og þó stundum hafi verið æsispennandi lokaumferðir á sitthvorum vellinum (T.d FH og Keflavík árið 2008) þá jafnast ekkert á við að fá úrslitaleik um sjálfan titilinn. Þá er sumarið allt undir í lokaleik fyrir framan mörg þúsund manns. Kaplakrikavöllur er frábær vettvangur fyrir slíkan leik þar sem áhorfendur geta fyllt stúkurnar á báðum endum vallarins.

Ef að FH og Stjarnan mætast í hreinum úrslitaleik hlýtur KSÍ að gera líkt og 1998 og láta þann leik fara fram síðar en aðrir leikir í lokaumferðinni þannig að sem flestir fótboltaunnendur geti mætt á völlinn. Árið 1998 voru fjórir leikir í lokaumferðinni klukkan 13:30 en þar réðst fallbaráttan. Klukkan 16:00 beindust síðan allra augu að leik KR og ÍBV í Vesturbænum.

Ég vona að FH og Stjarnan muni bjóða upp á samskonar úrslitaleik í lokaumferðinni og KSÍ hliðri leiktímum til að allir geti mætt á völlinn. Eftir leiki gærkvöldsins eru bæði FH og Stjarnan með 45 stig og mér er nokkuð sama hvernig næstu tveir leikir liðanna fara...bara svo framarlega sem bæði lið eigi raunhæfa möguleika á sjálfum Íslandsmeistaratitlinum þegar kemur að lokaumferðinni.

Fáum úrslitaleik 4. október klukkan 16:00!
Athugasemdir
banner
banner
banner