Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 19. september 2017 12:00
Elvar Geir Magnússon
Logi Ólafs: Þetta er gríðarlegur léttir
Logi Ólafsson, þjálfari Víkinga.
Logi Ólafsson, þjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi og aðstoðarmaður hans, Bjarni Guðjónsson.
Logi og aðstoðarmaður hans, Bjarni Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
„Þetta er gríðarlegur léttir," segir Logi Ólafsson, þjálfari Víkings R., um sigurinn gegn Víkingi í Ólafsvík í gær. Hans menn unnu 3-1 útisigur og um leið innsigluðu áframhaldandi veru í Pepsi-deildinni þegar tveimur umferðum er ólokið.

„Ég hef beðið eftir þessum stigum síðan við unnum Breiðablik og komumst upp í 22 stig. Við höfum átt mjög góða leiki, eins og heimaleikurinn gegn KA sem mér fannst við átt að vinna, og svo hefðum við með smá heppni getað klárað leikinn gegn Stjörnunni. Við vorum búnir að bíða eftir þessum stigum lengi og léttir að ná að landa þessu."

Leist ekki á blikuna
Leikurinn í Ólafsvík var leikinn við erfiðar aðstæður á hundblautum velli. Hann átti upphaflega að vera á sunnudaginn en var frestað vegna aftakaveðurs þegar Reykjavíkur-Víkingar voru lagðir af stað vestur.

„Mér leist ekki á blikuna á sunnudag þegar ég sá að það væru 26 metrar á sekúndu á Fróðárheiði. Ég var mjög ánægður með að svona þýðingarmikill leikur væri ekki að fara fram í aðstæðum þar sem veðrið myndi hafa svona mikil áhrif á úrslit leiksins. Við vorum rétt komnir í Mosfellsbæ þegar leiknum var frestað. Víkingar í Ólafsvík létu Birki Sveinsson (mótastjóra KSÍ) vita af því að það væri ekkert vit í því að spila leik þarna," segir Logi.

„Aðstæður í gær voru erfiðar en þó ekki þannig að það væri að hafa áhrif á leikinn þannig. Vindurinn getur gert mönnum erfitt fyrir en hann var ekki mikill í gær þó völlurinn hafi verið blautur. Við vissum að ef við myndum sýna nægilega mikla vinnusemi í leiknum myndum við fara langt með þetta."

Þarf stöðugleika í dalinn
Logi tók við Víkingum í lok maí eftir að Milos Milojevic hætti og tók við Breiðabliki.

„Þetta hefur verið sérstakt sumar. Mannabreytingar hafa gert að verkum að ekki hefur gefist tími til að kynnast mönnum náið, og hvaða eiginleikum þeir búa yfir. Þó maður hafi lýst mörgum leikjum með liðinu og fjallað um það í fjölmiðlum þá er þetta allt annað þegar kemur að þjálfun. Á síðustu dögum og vikum er maður að sjá eitthvað nýtt sem leikmenn geta gert en maður hafði ekki vitneskju um," segir Logi.

„Það hefur aðeins einkennt Víkingsliðið að þegar menn hafa átt möguleika á að koma sér inn í pakkann í efri hlutanum hafa menn guggnað. Þetta gerðist hjá FH á sínum tíma og var hjá Stjörnunni en 2013 breyttist þar. Þegar lið eru á þroskabrautinni og þurfa að komast yfir þröskulda gerist þetta hjá mörgum liðum. FH hefur ekki horft til baka síðan 2003 og Stjarnan ekki síðan 2013. Það þarf að ná upp stöðugleika í dalnum og ég hef fulla trú á því að það geti gerst hjá Víkingi í nánustu framtíð."

Logi gerði samning við Víkinga út næsta tímabil og segir að ekkert annað sé í kortunum en að hann haldi áfram.

Sjá einnig:
Sjáðu mörkin úr Ólafsvík í gær
Athugasemdir
banner
banner