Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 19. október 2017 11:23
Elvar Geir Magnússon
Árni Snær um myndatökuna umtöluðu og að hafa hafnað KR
Árni segir 100% að ÍA fari beint upp aftur.
Árni segir 100% að ÍA fari beint upp aftur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stuðningsmenn ÍA gátu brosað í gær þegar tilkynnt var að markvörðurinn Árni Snær Ólafsson hefði skrifað undir nýjan samning við félagið. ÍA féll úr Pepsi-deildinni í sumar en Árni er sannfærður um að liðið staldri stutt við í Inkasso-deildinni.

Myndin sem Skagamenn birtu eftir undirskriftina vakti umtal en Árni virtist síður en svo vera í skýjunum.

„Myndin er óheppileg fyrir mig, maður er bara ánægður með þetta. Maður hefur fengið nokkrar pillurnar en það er bara skemmtilegt. Maður er nú lífsglaðari en þetta og er ferskur á því, maður tekur alveg svona 'banterum'," segir Árni léttur.

Árni segir að það hefði verið erfitt að yfirgefa ÍA eftir fall liðsins úr Pepsi-deildinni.

„Eftir að tímabilið kláraðist fór maður að hugsa út í hvað best væri að gera. Á endanum fannst mér þetta réttast í stöðunni. Einn daginn hugsaði maður eitthvað annað en á endanum togaði Skagahjartað það mikið í mann."

Talað var um að Árni hefði hafnað KR en Vesturbæjarfélagið hafði áhuga á að fá hann í sínar raðir. Var ekki erfitt að segja nei við KR?

„Það var mjög erfitt. Það var einn af þeim möguleikum sem maður skoðaði alveg, án þess að eitthvað hafi verið klárt þar. Það var erfitt að fara ekki í Pepsi-deildina," segir Árni.

Á dögunum var Jóhannes Karl Guðjónsson tilkynntur sem nýr þjálfari ÍA. Hvernig lýst Árna á að fá Jóa Kalla sem þjálfara?

„Ég er mjög spenntur fyrir því. Ég hef rætt við hann nokkrum sinnum og það eru mjög skemmtilegar pælingar að fara að detta í gang hérna. Það er metnaður í gangi og það er eitt af því sem hélt manni hérna áfram."

Hann segir að andinn í hópnum sé á þann veg að hópurinn sé ákveðinn í að fara beint upp aftur.

„Algjörlega, annars hefði ég ekki verið að semja aftur. Við erum að fara upp og spilum í Pepsi-deildinni eftir eitt og hálft ár, það er 100%," segir Árni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner